Innlent

Sigrún ekki ráðin með pantaðri niðurstöðu

Heimir Már Pétursson skrifar
Stefán B. Sigurðsson og Ólína Þorvarðardóttir.
Stefán B. Sigurðsson og Ólína Þorvarðardóttir.
Stefán B. Sigurðsson háskólarektor á Akureyri segir ráðningu Sigrúnar Stefánsdóttur í starf sviðsforseta hug- og félagsvísindasviðs skólans ekki ráðast af pantaðri niðurstöðu. En við mat á hæfni umsækjenda í sumar og haust hlaut Ólína Þorvarðardóttir flest atkvæði þeirra fjögurra einstaklinga sem hæfnisnefnd taldi hæfust í starfið.

Stefán segir regur skólans kveða á um að fengið sé dómnefndarálit á umsækjendum, álit frá fagsviði og haft sé samráð við háskólaráð.

„Og í dómnefndarálitinu kemur skýrt fram að dómnefndin treysti sér ekki til að meta ýmsa þætti varðandi samskipti og því tengt og það væri ekki hægt að gera nema með viðtali,“ segir Stefán.

Þess vegna hafi Capacent verið fengið til að ræða við umsækjendur til að fara yfir þætti sem dómnefnd hafi ekki treyst sér til að meta. „Og fór í gegnum þetta allt saman og kom með niðurstöðu og þar kom Sigrún sterkast út,“ segir Stefán.

Ólína hafi verið metin næst hæfust og Rögnvaldur Ingþórsson lent í þriðja sæti hjá Capacent.

Þannig að það er langt í frá í þínum huga að þarna hafi verið um að ræða pantaða niðurstöðu af ykkar hálfu?

„Langt í frá, langt í frá. Við viljum bara fá hæfasta einstaklinginn og það var farið faglega yfir þetta og unnið faglega. Það voru skoðuð þau atriði sem komu fram í auglýsingu og það var það sem réði úrslitum,“ segir Stefán B. Sigurðsson háskólarektor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×