Gunnsteinn segir að ástæðan fyrir því að hann hafi verið handtekinn sé sú að hann hafi verið að vernda 37. gr. náttúruverndarlaga, þar sem fram kemur að vernda skuli eldhraun.
„Ég var þannig í rauninni í liði með lögreglunni, ég var að vernda lögin,“ segir Gunnsteinn.
Gunnsteinn lýsir aðstæðum á vettvangi þannig að fólkið hafði safnast saman og jarðýtan var á leiðinni. Fólkið tók sér stöðu fyrir framan jarðýtuna og lögreglan bað fólkið að fara frá.
Hann segir að fólkið hafi ætlaði að koma í veg fyrir að jarðýtan eyðilegði hraunið. Lögreglan hefði átt, ásamt fólkinu að koma í veg fyrir að hraunið yrði eyðilagt. Í stað þess gekk lögreglan í lið með þeim sem ætla að eyðileggja hraunið og brjóta þannig lögin.
„Ég harma það mjög,“ segir Gunnsteinn.
Á meðan á samtali blaðamanns og Gunnsteins stóð, kom annar maður í klefann til hans, sem hafði einnig verið handtekinn.
Sá er Ragnar Unnarsson og samkvæmt honum hafa nú fleiri mótmælendur verið handteknir.
