Erlent

Sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi kallaður á teppið

Samúel Karl Ólason skrifar
Edward Snowden er nú í Rússlandi þar sem hann fékk vegabréfsáritun til eins árs eftir að hann sótti um hæli þar.
Edward Snowden er nú í Rússlandi þar sem hann fékk vegabréfsáritun til eins árs eftir að hann sótti um hæli þar. Mynd/AFP
Utanríkisráðherra Frakklands hefur boðað sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi á sinn fund eftir að dagblaðið Le Monde  í Frakklandi heldur því fram að bandaríska þjóðaröryggisstofnunin, NSA,  hafi hlerað milljónir símtala í Frakklandi.  Frá þessu er sagt á vef BBC.

Í franska dagblaðinu segir að upplýsingarnar séu byggðar á lekum Edward Snowden, fyrrverandi starfsmanns NSA, sem er á flótta og hefur sótt um hæli í Rússlandi, og þar komi fram að embættismenn og viðskiptamenn hafi verið hleraðir jafnt sem og grunaðir hryðjuverkamenn.

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, segir njósnir NSA í Frakklandi vera óásættanlegar.nordicphotos/afp
Því er haldið fram að NSA hafi hlerað 70,3 milljónir símtala í Frakklandi á einungis 30 dögum, eða frá 10. desember síðastliðnum til 8. janúar. Einnig á þjóðaröryggisstofnunin að hafa haft aðgang að milljónum textaskilaboða. Þá mun hlerunin vera gangsett þegar ákveðin lykilorð eru töluð eða skrifuð.

Innanríkisráðherra Frakklands Manuel Valls, hefur sagt að þessar ásakanir væru sláandi og ef bandamenn Frakklands hefðu njósnað um landið væri það óviðunandi.

Le Monde greindi þó frá því í júlí að Frönsk stjórnvöld hefðu njósnað um íbúa Frakklands og byggju yfir miklu magni persónulegra upplýsinga íbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×