Fótbolti

Blatter vill að HM 2022 verði spilað í jólamánuðinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sett Blatter, forseti FIFA.
Sett Blatter, forseti FIFA. Mynd/NordicPhotos/Getty
Sett Blatter, forseti FIFA, er undir stöðugri pressu að komast að niðurstöðu um hvenær HM í fótbolta í Katar fari fram eftir níu ár en allir eru sammála því að það er ekki hægt að halda mótið í hitasvækjunni sem er í Katar yfir sumartímann.

Nýjasta útspil forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins er að mæla með því að Heimsmeistaramótið fari fram í nóvember og desember árið 2022. Hann telur ekki koma til greina að halda keppnina í byrjun ársins, það er í janúar eða febrúar, eins og flestir hafa talað um hingað til.

„Þegar ég tala um vetur þá er ég að meina nóvember og desember. Keppnin getur ekki farið fram í janúar eða febrúar," segir Sett Blatter við AP-fréttastofuna en aðalástæðan fyrir því er að á þeim tíma fara fram Vetrarólympíuleikarnir. Það kemur þó ekki í ljós fyrr en í júlí 2015 hvort vetrarleikarnir 2022 verða í Ósló, Kraká, Lviv, Peking eða Almaty.

Það eru fleiri en Blatter sem eru að henda fram tillögum að nýjum tíma fyrir HM 2022 en Karl Heinz Rumenigge, formaður knattspyrnufélaga í Evrópu, vill sjá HM í Katar fara fram í apríl og maí 2022 og Michel Platini, forseti UEFA, vill halda mótið í janúar.

Það er í það minnsta ljóst að það þarf að hliðra til keppnistímabilinu í Evrópufótboltanum til að koma HM fyrir á nýjum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×