Tónlist

Jól alla daga

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Af einhverjum ástæðum er það ekki samfélagslega viðurkennt að byrja að hlusta á jólalög fyrstu vikuna í nóvember. Sjálfur byrjaði ég í gær, reyndar töluvert fyrr en vanalega, og nú þarf ég bara að troða negulnöglum í nokkrar mandarínur til að komast í brjálað jólaskap. Ég reyndi að deila gleðinni með vinum mínum á Facebook en undirtektirnar voru allt annað en góðar. Ég fékk meira að segja morðhótun frá einum. Rólegur, Skúli fúli.

Mér finnst algjör synd að margar af helstu perlum íslenskrar dægur- og koverlagasögu fái ekki neina spilun í rúma 11 mánuði á ári. Af hverju er Jól alla daga með Eiríki Haukssyni til dæmis ekki spilað allt árið um kring? Lagið fjallar um að það séu jól ALLA DAGA. Dööö!
Þetta er eins og ef Manic Monday með Bangles væri bara spilað á mánudögum, Ruby Tuesday með Rolling Stones bara á þriðjudögum, og Today með Smashing Pumpkins bara daginn sem það kom út og svo aldrei aftur.

Þið megið halda áfram að vera fúl á móti jólunum með ykkar þjóðlagaskotna þunglyndispopp í eyrunum þar til á fyrsta í aðventu. Ég ætla hins vegar að eyða næstu tveimur mánuðum með félögum mínum Eyjólfi Kristjánssyni, Helgu Möller, Ladda, Ríó Tríói og Þremur á palli. Mér er alveg sama þó það sé ekki einu sinni búið að kveikja í IKEA-geitinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×