Erlent

Þrýst á borgarstjóra að segja af sér vegna krakkreykinga

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Ford sagði í gær að hann elskaði starf sitt og ætlar að láta kjósendur skera úr um það hvort hann sé hæfur til að gegna embætti.
Ford sagði í gær að hann elskaði starf sitt og ætlar að láta kjósendur skera úr um það hvort hann sé hæfur til að gegna embætti. mynd/getty
Mikill þrýstingur er á Rob Ford, borgarstjóra Toronto, um að hann segi af sér vegna krakkreykinga sinna sem hann viðurkenndi fyrir fjölmiðlum í gær.

Hann sagði atvikið hafa átt sér stað fyrir um það bil ári síðan og að hann hafi reykt efnið í ölæði. Hann sagðist ekki ætla að segja af sér vegna málsins en nú er þrýst á hann úr öllum áttum.

Rúmlega tvö hundruð mótmælendur stóðu fyrir utan ráðhúsið þegar Ford mætti til vinnu í dag og neyddist hann til að fara inn bakdyramegin.

Yfirvöld í Toronto segjast lögum samkvæmt ekki geta vísað Ford úr embætti nema hann hafi verið dæmdur fyrir glæp.

Borgarfulltrúar í Toronto hafa tjáð sig um málið og segist James Pasternak vonast til þess að hann segi af sér með sæmd. „Hann verður að komast að þeirri niðurstöðu sjálfur að best sé fyrir hann að hætta,“ segir Janet Davis, annar borgarfulltrúi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×