Viðskipti innlent

Hannes dæmdur til að greiða Landsbankanum á annan milljarð króna

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hannes Smárason, fjárfestir, var í dag dæmdur til að greiða Landsbankanum á annan milljarð króna vegna sjálfskuldarábyrgða sem hann gekkst í vegna lánveitinga bankans til tveggja einkahlutafélaga í hans eigu. 

Krafa Landsbankans á hendur Hannesi á rót sína að rekja til sjálfskuldarábyrgðar sem Hannes gekkst í fyrir lánveitingum Landsbankans til handa Fjárfestingafélaginu Primusi ehf., og hins vegar Eignarhaldsfélaginu Oddaflugi ehf., en um var að ræða félög í eigu Hannesar sem héldu á eignarhlut hans í FL Group fyrir bankahrunið. 

Lánin stóðu í 24,7 milljörðum króna

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp í dag, að Landsbankinn hafi lánað Primusi 12,5 milljarða króna í júní 2005, 6 milljarða í apríl 2006, 1,3 milljarða í september 2007, 1,9 milljarða í ágúst 2007 og 280 milljónir í júní 2007. Þá fékk Oddaflug tveggja milljarða króna lán í apríl 2007.

Heildarstaða þessara lána Landsbankans til félaga Hannesar nam 24,7 milljörðum króna í desember 2007. Hannes hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna lánveitinganna upp á 2,2 milljarða króna.

Með dómi héraðsdóms var Hannes dæmdur til að greiða 1,9 milljarða króna ásamt dráttarvöxtum að frádregnum 300 milljónum króna. Sannað þótti í málinu að greitt hefði verið inn á reikning Fjárfestingafélagsins Primusar ehf. hinn 19. mars 2008 og sjálfskuldarábyrgð Hannesar lækkuð um sömu fjárhæð á móti. 

Til varnar í einka- og sakamálum

Það er víða sótt að Hannesi því hinn 28. október sl. var hann ákærður af embætti sérstaks saksóknara fyrir fjárdrátt vegna 2,8 milljarða króna sem hann lét millifæra af reikningum FL Group á bankareikning Fons eignarhaldsfélags, sem var í eigu Pálma Haraldssonar, í apríl 2005. Fram kemur í ákæru að Hannes hafi látið millifæra fjárhæðina án vitneskju þáverandi forstjóra og stjórnar FL Group. Hannes hefur lýst sig saklausan af þessum sakargiftum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×