Erlent

NSA njósnaði um klámnotkun meintra öfgamanna

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Fullyrt er að gagnasöfnunin hafi verið til þess að draga úr trúverðugleika mannanna og grafa undan orðspori þeirra.
Fullyrt er að gagnasöfnunin hafi verið til þess að draga úr trúverðugleika mannanna og grafa undan orðspori þeirra.
Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, safnaði gögnum um klámnotkun að minnsta kosti sex manna sem stofnunin telur öfgamanna. Þetta kemur fram í leynilegu skjali frá uppljóstraranum Edward Snowden, og er fullyrt að gagnasöfnunin hafi verið til þess að draga úr trúverðugleika mannanna og grafa undan orðspori þeirra, en mennirnir sex eru allir áhrifamiklir múslimar að mati NSA.

Í skjalinu, sem dagsett er 3. október 2012, eru sexmenningarnir teknir sem dæmi um það hvernig hægt sé með rafrænu eftirliti að „kortleggja persónuleikabresti fólks á borð við klámnotkun á internetinu“. Niðurstöður NSA í skjalinu eru þær að ósamræmi sé í hegðun meintra öfgamanna út á við og í einkalífinu.

„Það ætti ekki að koma neinum á óvart að bandarísk yfirvöld noti allar löglegar aðferðir til þess að hindra mögulega hryðjuverkamenn,“ segir Shawn Turner, upplýsingafulltrúi NIC (National Intelligence Council), í samtali við Huffington Post.

Upplýsingum safnað um alla

Jameel Jaffer hjá mannréttindasamtökunum American Civil Liberties Union segir að gagnasöfnunin sé mikið áhyggjuefni. „Það er mikilvægt að hafa í huga að gagnasöfnun NSA beinist alls ekki eingöngu að þessum mönnum. Stofnunin safnar ógrynni viðkvæmra upplýsinga um nánast alla.“

Enginn sexmenninganna er talinn eiga þátt í skipulagningu hryðjuverka og kemur það fram í skjalinu. Þeir eru allir taldir búa utan Bandaríkjanna, en einn þeirra er sagður Bandarískur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×