Innlent

Fjöldi vændisbrota tífaldast á milli ára

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Sprenging hefur orðið í fjölda brota vegna kaupa á vændi. Brotafjöldi hefur tífaldast í ár ef miðað er við síðasta ár. Þingfesting fór fram í 21 máli í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna meintra kaupa á vændi og tilrauna til vændiskaupa. Örfáir þeirra sem ákærðir eru mættu fyrir dóm í dag. Fyrir skömmu var einnig nokkur fjöldi mála tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness vegna svipaðra brota.

Ný lög tóku gildi árið 2009 þar sem kaup á vændi var gert ólöglegt. Sá sem gerist sekur um slíkt getur átt yfir höfði sér allt að eins árs fangelsi og skal sæta sektum.

Fjöldi brota vegna vændiskaupa.
Algjör sprenging hefur orðið í fjölda vændismála í ár og er fjöldi þeirra á fyrstu níu mánuðum ársins nærri þrefalt fleiri en á fjögurra ára tímabili eftir að lögin voru sett 2009. Fjögur brot vegna vændiskaupa rötuðu inn á borð Ríkislögreglustjóra árið 2009. Árið eftir höfðu þau margfaldast og voru 24 talsins. Nokkuð dró úr fjöldanum árið 2011 en jókst á ný á síðasta ári. Í lok árs 2012 var fjöldi brota vegna vændiskaupa alls 49 talsins.

Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur fjöldi brota tífaldast á milli ára. 136 brot vegna vændiskaupa hafa komið inn á borð ríkislögreglustjóra.

Fjöldi þeirra mála sem fer alla leið inn í dómssal hefur einnig aukist. Eins og sjá má á meðfylgjandi skýringamynd þá hefur fjöldi ákæra vegna kaupa á vændi aukist mikið á þessu ári. 37 ákærur hafa verið gefnar út í ár samanborið við 15, árin þrjú þar á undan.

Það var á Laugarvegi, helstu verslunargötu Íslendinga, þar sem umfangsmikil vændisstarfssemi fór fram. Mennirnir sem mættu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag voru samkvæmt heimildum fréttastofu á öllum aldri og keyptu vændi af einni og sömu konunni. Fréttastofa Stöðvar 2 mun halda áfram að fjalla um vændi á Íslandi næstu daga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×