Viðskipti innlent

Olíuleit með Íslendingum lögð fyrir Noregskonung

Kristján Már Unnarsson skrifar
Noregskonungur og krónprinsinn á ríkisráðsfundi í konungshöllinni með stjórn Ernu Solbergs.
Noregskonungur og krónprinsinn á ríkisráðsfundi í konungshöllinni með stjórn Ernu Solbergs.
Ákvörðun um hvort norsk stjórnvöld auki þátttöku sína í olíuleit á íslenska Drekasvæðinu verður borin undir Harald Noregskonung á ríkisráðsfundi í konungshöllinni í Osló í dag. Þetta fékk fréttastofan staðfest úr norska stjórnkerfinu. Bera þarf öll mikilsverðustu stjórnarmálefni Noregs sem og helstu milliríkjasamninga undir konung til staðfestingar og er það jafnan gert á ríkisráðsfundum.

Fyrir liggur að norsk stjórnvöld þurfa að taka afstöðu til þess hvort þau gerist aðilar að þriðja sérleyfinu á Drekasvæðinu sem Orkustofnun hyggst úthluta til kínverska ríkisolíufélagsins CNOOC og Eykon Energy, í samræmi við Jan Mayen-samning Lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs frá árinu 1981. 

Tveir stuðningsflokkar minnihlutastjórnar Ernu Solbergs þrýsta á ríkisstjórnina að draga sig út úr olíuleit með Íslendingum og telja það í anda samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar frá því í síðasta mánuði um að opna ekki ný svæði til olíuleitar. Tord Lien, olíu- og orkumálaráðherra Noregs, lagði áherslu á það í viðtali við norska fjölmiðla í síðustu viku að ekkert í samstarfssáttmálanum fjallaði um norska þátttöku á íslenska landgrunninu. Þátttaka Noregs myndi ráðast af því hversu mikla peninga norska ríkið gæti grætt á verkefninu.

Ákvörðun Norðmanna verður væntanlega kynnt íslenskum stjórnvöldum að loknum ríkisráðsfundi síðar í dag.


Tengdar fréttir

Norðmenn biðja um frest vegna Drekans

Norska ríkisstjórnin hefur óskað eftir framlengingu á fresti til að svara íslenskum stjórnvöldum um hvort hún hyggst nýta sér rétt sinn til að ganga inn í þriðja sérleyfið á Drekasvæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×