Maðurinn segir Stefán Loga Sívarsson, einn sakborninga, hafa hringt og beðið sig að fela fíkniefni á heimili við Grýtubakka þar sem hann dvaldist, því að lögreglan gæti komið.
Tíu mínútum síðar hafi Stefán Logi komið að Grýtubakka ásamt hinum sakborningunum og þremur öðrum. Stefán Logi hafi kýlt sig í andlitið, rifið í hálsmen sem hann bar og reynt að kyrkja hann, en við það hafi keðjan slitnað.
Þorði ekki að gera lögreglu vart við sig
Maðurinn segist hafa greint Stefáni Loga frá sambandi barnsmóður hans við hitt fórnarlambið og við það hafi Stefán Logi reiðst mikið, þá aðallega vegna þess að sér hefði ekki verið sagt það fyrr.
Hann lýsir því að næst hafi þeir farið út og þar hafi Gísli Þór og Hinrik Geir stungið sig í öxlina með eggvopni. Að því loknu hafi þeir ekið upp að Spöng þar sem Stefán Logi hafi stungið sig með litlu eggvopni í höndina. Þá hafi verið keyrt aftur að Grýtubakka þar sem ofbeldið hafi haldið áfram. Stefán Blackburn hafi meðal annars hent í sig sprautu sem maðurinn hafði sjálfur notað og hafi hún stungist í hann, en sprautunálar lágu á víð og dreif um íbúðina.
Lögreglan hafi komið þar að og þá hafi sakborningarnir flúið með manninn í næsta stigagang og falið sig þar til lögreglan hafi farið aftur. Verjendur spurðu manninn ítrekað hvers vegna hann hafi ekki reynt að gera vart við sig eða hlaupa í burtu. Hann svaraði því þannig að hann hafi ekki þorað því sökum ótta við ákærðu.
Sendur reglulega í sturtu til að þrífa af sér blóðið
Maðurinn segir að í íbúðinni við Grýtubakka hafi hinn maðurinn sem raðist var á verið eftir barsmíðarnar við Spöngina, og að sakborningarnir hafi byrjað að beita hann ofbeldi. Næst hafi verið keyrt til Hafnarfjarðar, að heimili föður Stefáns Loga, þar sem hinum manninum hafi verið byrlaðar einhverjar töflur“. Ekið hafi verið með hann að Grýtubakka eina ferðina enn, hann hafi verið skorinn í andlitið og barinn með kylfum, og þannig hafi þetta gengið „áfram bara í sólarhring“. Hann hafi reglulega verið sendur í sturtu til að þrífa af sér blóðið.
Í Hafnarfirði hafi faðir Stefáns Loga spurt þá hvað væri í gangi og beðið þá að hætta en því hafi ekki verið sinnt. Þá segir maðurinn að á einhverjum tímapunkti hafi honum verið sagt að það ætti að fara með hann í Heiðmörk og drepa hann. Undir morgunn hafi hinn maðurinn verið sóttur og honum ekið til Stokkseyrar. Honum sjálfum hafi hins vegar verið sleppt.
Maðurinn segir að sér hafi liðið mjög illa eftir árásina og að hann fái enn martraðir vegna hennar. Hann hafi ekki leitað sér aðstoðar en hann hafi þó farið í blóðprufu eftir árásina til að kanna mögulegt lifrarbólgusmit.
Verjendur fóru í hliðarherbergi til að ræða við skjólstæðinga sína áður en skýrslutökunni lauk. Nú er deilt um hvort að síðara fórnarlambið beri vitni í dag eða á morgun. Verjendur vilja hætta en sækjendur halda áfram.
Uppfært:
Síðara fórnarlambið mun bera vitni í dag. Því er líklegt að þinghaldið muni standa vel yfir klukkustund í viðbót. Verjendurnir eru mjög ósáttir.