Erlent

Fékk belju frá Bill Gates í leynivinaleik Reddit

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Milljarðamæringurinn Gates er virkur í góðgerðarstarfi.
Milljarðamæringurinn Gates er virkur í góðgerðarstarfi. mynd/reddit
Notandi á Reddit.com fékk óvæntan glaðning frá leynivini sínum í gegnum vefsíðuna. Leynivinurinn gaf notandanum, Rachel nokkurri, tuskudýr í líki belju, ferðabók frá National Geographic og fallegt kort.

Í kortinu kom fram að kýr hefði verið gefin í nafni Rachelar til fjárþurfi fjölskyldu á ótilgreindum stað í gegnum góðgerðarstofnunina Heifer International. Í skilaboðunum sagði að kýrin myndi hjálpa fjölskyldunni að hjálpa sér sjálfri með afurðum sínum.

Rachel var himinlifandi með gjafirnar.mynd/reddit
Undir orðsendinguna ritaði milljarðamæringurinn Bill Gates, og segir Rachel að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því strax að um Gates væri að ræða. „Ég hélt bara að þetta væri einhver vinalegur náungi að nafni Bill,“ segir Rachel, sem er himinlifandi með gjöfina. Með henni fylgdi svo ljósmynd af Gates haldandi á gjöfinni fyrir framan jólatré.

Hún skrifaði þakkarbréf til Gates á Reddit og segir gjöfina hafa verið fullkomna. „Þú negldir það Bill,“ skrifar hún, en svo virðist sem Gates hafi einnig látið fé af hendi rakna til Heifer International í nafni Rachelar. Hún segist þó ekki geta ímyndað sér hversu há fjárhæðin sé.

Leynivinaleikur Reddit, sem nefnist Reddit Gifts, er svipaður öðrum leynivinaleikjum. Notendur vefsins skrá sig og skiptast á gjöfum og fallegum skilaboðum.

Jólakortið frá Gates.mynd/reddit
Í fyrstu hélt Rachel að leynivinur sinn væri „bara einhver vinalegur náungi að nafni Bill“.mynd/reddit



Fleiri fréttir

Sjá meira


×