Sport

Eygló komst í úrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Daníel
Eygló Ósk Gústafsdóttir náði sjöunda besta tímanum í undanrásum 200 m baksunds á EM í 25 m laug í dag og syndir því til úrslita í greininni síðdegis.

Tíu efstu komust beint áfram í úrslitin í greininni en Eygló synti á 2:08,49 mínútum sem er rúmum tveimur sekúndum frá Íslandsmeti hennar. Hún á því talsvert inni fyrir úrslitasundið.

Alls tóku 23 keppendur þátt í undanrásunum í morgun en Daryne Zevina frá Úkrína náði besta tímanum. Hún synti á 2:04,06 mínútum.

Úrslitasundið hefst klukkan 16.43 og verður sýnt beint frá keppninni á Eurosport.

Eygló komst einnig í úrslit í 100 m baksundi og hafnaði í áttunda sæti. Hún komst í undanúrslit í 50 m baksundi þar sem hún varð fimmtánda.

Hún er eini íslenski keppandinn sem komst áfram úr undanrásum en aðrir hafa lokið keppni.

Kristinn Þórarinsson varð í 47. sæti af jafn mörgum keppendum í 200 m bringusundi. Hann synti á 2:18,36 sem er tæpum fjórum sekúndum frá hans besta.

Daníel Hannes Pálsson keppti í 200 m skriðsundi og kom í mark á 1:52,89 mínútum. Hann var aðeins 0,25 sekúndum frá hans besta tíma en hafnaði í 76. sæti af 81 keppanda.

Inga Elín Cryer var rúmum tveimur sekúnum frá hennar besta í 200 m skriðsundi. Hún synti á 2:03,33 mínútum og varð í 39. sæti af 42 keppendum.

Karlasveit Íslands keppti í 4x50 m skriðsundi og hafnaði í sextánda og neðsta sæti á 1:33,82 mínútum. Það dugði ekki til að bæta Íslandsmetið í greininni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×