Innlent

Biðja að Friðrik snúi til baka

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Friðriks hefur verið saknað frá því í apríl.
Friðriks hefur verið saknað frá því í apríl.
Fjölskylda Friðriks Kristjánssonar sem hvarf í Suður-Ameríku fyrr á árinu hefur stofnað vefsíðu með myndum og upplýsingum um Friðrik.

Á síðunni kemur fram að Friðrik hafi horfið 1. apríl og hann hafi verið staddur í Paraguay síðast þegar fjölskylda hans heyrði frá honum. Friðrik hafi lært arkitektúr í Barcelona og því sé hann altalandi á spænsku. Hann sé mjög íþróttamannslegur og hafi spilað fótbolta í mörg ár á Íslandi og því sé hann í góðu formi.

Fjölskyldan saknar Friðriks mjög mikið og þau biðja á hverjum degi að hann snúi til baka heill á húfi.

Eins og fram hefur komið á Vísi er Friðrik 30 ára og var á ferðalagi um Suður-Ameríku. Lögreglan óskaði eftir aðstoð Interpol í apríl til þess að finna Friðrik og þá var talið að hann væri staddur í Paragvæ eða Brasilíu. Eftirgrennslan bar þó ekki árangur.

Margar sögusagnir hafa verið uppi um afdrif Friðriks, en enginn fótur virðist vera fyrir þeim.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi hinsvegar frá því í apríl að lögreglu hefðu borist upplýsingar um að Friðriki hefði verið ráðinn bani erlendis, eftirgrennslan lögreglu hafi þó ekki leitt neitt slíkt í ljós.

Þeir sem búa yfir upplýsingum um afdrif Friðriks geta sent póst á lögregluna á netfangið abending@lrh.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×