Innlent

Færeyjaflugið á leið til Keflavíkur meðan ekki fæst svar um Airbus

Kristján Már Unnarsson skrifar
Airbus-þota Færeyinga lenti á Reykjavíkurflugvelli sumarið 2012.
Airbus-þota Færeyinga lenti á Reykjavíkurflugvelli sumarið 2012.
Færeyska flugfélagið Atlantic Airways og Flugfélag Íslands hafa neyðst til að auglýsa að Færeyjaflugið flytjist til Keflavíkur tímabundið í febrúar þar sem ekkert svar fæst frá íslenskum samgönguyfirvöldum um hvort Færeyingar megi nota Airbus-þotur sínar á Reykjavíkurflugvelli.

Færeyska félagið hefur í aldarfjórðung notað 95 sæta British Aerospace-þotur og hafa þetta verið stærstu vélarnar sem nota Reykjavíkurflugvöll að staðaldri. Færeyingar eiga hins vegar bara eina slíka vél eftir og sú þarf að fara í viðhald í febrúar. Þeir vilja í staðinn fá að nota nýja 132 sæta Airbus en eru að hrökklast til Keflavíkur meðan ekki fæst svar.

„Eins og staðan er núna þá þurfa þeir að lenda í Keflavík, en ekki hér, eins og þeir hafa óskað eftir,” sagði Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, í viðtali á Reykjavíkurflugvelli í dag. Vegna þessa sé búið að setja Færeyjaflugið upp til Keflavíkur í febrúar.

„Það er óþægilegt, - óþægindi fyrir farþega, - og miklu betra að koma hingað. Þá höldum við áætluninni eins og hún er aðra daga og aðra mánuði vetrarins.”

Airbus-þota Færeyinga hefur einu sinni lent í Reykjavík, sumarið 2012, í tengslum við vináttulandsleik Íslendinga og Færeyinga í knattspyrnu. Stærri vélar lenda þó af og til í Reykjavík. Árni minnir á að Reykjavíkurflugvöllur er notaður sem varaflugvöllur fyrir Boeing 757-vélar Icelandair.

„Sem eru töluvert stærri en þessi vél. Þannig að það eru allar aðstæður til að geta tekið við þessari vél hér.” Árni segir flugbrautirnar nægilega langar fyrir Airbus-vélina og hún sé auk þess hljóðlát. Minni hávaði sé í Airbus-vélinni en þeirri sem Færeyingar nota í dag.

Þoturnar sem Færeyingar hafa notað síðastliðin 25 ár eru stærstu vélarnar í áætlunarflugi til Reykjavíkur.
Spyrja má hvort ósk Færeyinga um Airbus sé heit kartafla í deilum um flugvöllinn. Í aprílmánuði í vor heyrðu áhorfendur Stöðvar 2 forstjóra Atlantic Airways lýsa eftir svari íslenskra flugmálayfirvalda en hann sagðist þá vera búinn að bíða í átta mánuði. Í júníbyrjun sendi Flugfélag Íslands minnisblað til Isavia um málið, í september sendi Flugfélag Íslands skriflega ósk. Núna í desemberbyrjun óskaði Ísavia eftir afstöðu innanríkisráðuneytis. En er það flugvallarpólitík sem veldur tregðu á svari? 

„Ég get ekki sagt til um það. Ég veit ekki hvernig á því stendur nákvæmlega afhverju þetta er. Ég hef ekki fengið skýringar á því,” svarar Árni Gunnarsson.


Tengdar fréttir

Vilja nota Airbus á Reykjavíkurflugvelli

Færeyska flugfélagið Atlantic Airways óskar eftir því að fá að nota 144 sæta Airbus-þotu í áætlunarflugi sínu milli Reykjavíkur og Færeyja. Þetta yrði stærsta flugvélin sem nýtti Reykjavíkurflugvöll í reglubundnu flugi. Airbus-þota Færeyinga hefur reyndar einu sinni lent á Reykjavíkurflugvelli, í ágústmánuði í fyrrasumar, og fékk þá höfðinglegar móttökur. Færeyska flugfélagið fær aðra Airbus-vél nú í vor og þá þriðju í október. Eldri þotur Færeyinga, af gerðinni British Aerospace, taka 95 farþega, og hafa verið stærstu vélarnar í áætlunarflugi til Reykjavíkur, en Airbus A319 tekur helmingi fleiri, eða 144 farþega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×