Færeyska félagið hefur í aldarfjórðung notað 95 sæta British Aerospace-þotur og hafa þetta verið stærstu vélarnar sem nota Reykjavíkurflugvöll að staðaldri. Færeyingar eiga hins vegar bara eina slíka vél eftir og sú þarf að fara í viðhald í febrúar. Þeir vilja í staðinn fá að nota nýja 132 sæta Airbus en eru að hrökklast til Keflavíkur meðan ekki fæst svar.
„Eins og staðan er núna þá þurfa þeir að lenda í Keflavík, en ekki hér, eins og þeir hafa óskað eftir,” sagði Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, í viðtali á Reykjavíkurflugvelli í dag. Vegna þessa sé búið að setja Færeyjaflugið upp til Keflavíkur í febrúar.
„Það er óþægilegt, - óþægindi fyrir farþega, - og miklu betra að koma hingað. Þá höldum við áætluninni eins og hún er aðra daga og aðra mánuði vetrarins.”
Airbus-þota Færeyinga hefur einu sinni lent í Reykjavík, sumarið 2012, í tengslum við vináttulandsleik Íslendinga og Færeyinga í knattspyrnu. Stærri vélar lenda þó af og til í Reykjavík. Árni minnir á að Reykjavíkurflugvöllur er notaður sem varaflugvöllur fyrir Boeing 757-vélar Icelandair.
„Sem eru töluvert stærri en þessi vél. Þannig að það eru allar aðstæður til að geta tekið við þessari vél hér.” Árni segir flugbrautirnar nægilega langar fyrir Airbus-vélina og hún sé auk þess hljóðlát. Minni hávaði sé í Airbus-vélinni en þeirri sem Færeyingar nota í dag.

„Ég get ekki sagt til um það. Ég veit ekki hvernig á því stendur nákvæmlega afhverju þetta er. Ég hef ekki fengið skýringar á því,” svarar Árni Gunnarsson.