Innlent

Stefnir á Ólympíuleika á öðrum fæti

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Þrettán ára drengur, sem greindist með krabbamein og missti vinstri fót sinn árið 2009, stefnir á að taka þátt í vetrarólympíuleikunum 2018. Þar ætlar hann að keppa á skíðum, en hann rennir sér niður brekkurnar á öðrum fæti.

Hilmar Snær Örvarsson var aðeins átta ára gamall þegar hann greindist með beinkrabbamein. Fljótlega gekkst hann undir erfiða lyfjameðferð og ljóst varð að skera þyrfti burt meinið í vinstri fæti hans. Fljótlega eftir að Hilmar lauk við krabbameinsmeðferð fór hann ásamt fjölskyldu sinni í skíðaferð til Akureyrar. Þar fór hann á skíðanámskeið á vegum Íþróttafélags fatlaðra. Eftir það var ekki aftur snúið og Hilmar hóf að æfa skíðiþróttina með Víkingi.

Í vetur fór Hilmar í æfingaferð með fötluðu afreksskíðafólki til Austurríkis. Þórður Georg Hjörleifsson, þjálfari Hilmars, segir hann ekki hafa gefið hinum neitt eftir. Þó voru þau vant keppnisfólk og öll nokkuð eldri en hann.

„Hann stefnir á Ólympíuleikana og hann fer á þá um leið og hann er orðinn nógu gamall. Það er alveg klárt mál,“ segir Þórður.

En Hilmar æfir ekki aðeins skíði, heldur leggur hann líka stund á aðrar íþróttir.

„Ég æfi líka körfubolta og golf, en skíðin eru alltaf í forgangi,“ segir þessi efnilegi skíðakappi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×