Fótbolti

„Ætli Lars fái sér ekki tvö til þrjú rauðvínsglös“

Kolbeinn Tumi Daðason í Ósló skrifar
Aron Einar var eitt bros í kvöld.
Aron Einar var eitt bros í kvöld. Mynd/Vilhelm
„Gunni Gylfa var klár með símann í sambandi við mann sem var að lýsa þessu. Við vissum að það væru þrjátíu sekúndur eftir. Þetta var eiginlega komið en við samt biðum. Fótbolti er óútreiknanlegur.“

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, var í skýjunum í leikslok.

„Þetta er ólýsanlegt. Við gerðum allt sem við þurftum að gera. Leikurinn var ekki vel spilaður af okkar hálfu en samt vel gert taktísklega séð,“ sagði Aron Einar. Hann segir tíðindin frá Sviss hafa hjálpað liðinu.

„Við heyrðum fögnuðinn í áhorfendum og vissum að Sviss hafði skorað. Það er eins og það hafi komið einhver ró yfir mannskapinn eftir það og við fórum að spila boltanum,“ sagði Akureyringurinn. Hann lýsti þeim sekúndum þar sem íslensku leikmennirnir biðu eftir staðfestum úrslitum í Bern.

„Gunni Gylfa var klár með símann í sambandi við mann sem var að lýsa þessu. Við vissum að það væru þrjátíu sekúndur eftir. Þetta var eiginlega komið en við samt biðum. Fótbolti er óútreiknanlegur.“

Stuðningurinn í Ósló var ótrúlegur og fyrirliðinn tók undir það.

„Ég hef aldrei upplifað annað eins á útivelli með íslenska landsliðinu. Þetta var æðislegt og við þökkum öllum fyrir að borga fúlgur fjár til þess að koma hingað og styðja við okkur. Vissulega búa einhvejrir hérna en það voru margir sem flugu út. Við þurftum á þeim að halda í þessum leik og þeir hjálpuðu okkur.“

Aron Einar vildi ekki meina að draumur hefði orðið að veruleika. Markmiðið var skýrt.

„Við erum náttúrlega klikkaðir egóistar. Við höfum alltaf haft markmið og trú á sjálfum okkur. Það hefur skilað okkur þangað sem við erum komnir.“

En ætli leikmennirnir fái grænt ljós á fagnaðarlæti í kvöld?

„Ætli Lars fái sér ekki tvö til þrjú rauðvínsglös og taki það rólega,“ sagði Aron Einar en upplýsti ekkert um plön leikmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×