Innlent

Voru í sínu þriðja stökki

Lögregluyfirvöld hafa staðfest að rannsókn sé hafin á því hvað fór úrskeiðis þegar tveir Íslendingar létu lífið í fallhlífarstökki í Flórída í gærkvöldi.

Leitað var að mönnunum á jörðu og úr lofti í um níu klukkustundir. Lík þeirra fundust í skóglendi nærri Zephyrhills flugvellinum laust fyrir miðnætti í gær.

Melanie Snow, talsmaður fógetans í Pasco County, vildi ekki gefa upp í samtali við AP-fréttastofuna hvort fallhlífar mannanna hefðu opnast. Það væri eitt þeirra sem væri til rannsóknar.

Snow staðfesti að mennirnir hefðu verið í sínu þriðja stökki þegar slysið átti sér stað. Þeir stukku ekki saman heldur hvor í sínu lagi. Lík mannanna fundust skammt hvort frá öðru.

Ekki fyrsta banaslysið

Melanie Snow staðfesti í samtali við fréttastofu Rúv að fyrirtækið Skydive City væri afar vinsælt og mikill fjöldi stökka færi fram á vegum fyrirtækisins.

Samkvæmt Snow er þetta ekki í fyrsta skipti sem dauðsföll verða í stökkum á vegum fyrirtækisins og fréttir erlendra vefmiðla staðfesta frásögn hennar. Árið 2012 lét sextug kona lífið í stökki á vegum Skydive City þegar fallhlíf hennar opnaðist ekki.

Þá lét sjötugur karlmaður lífið árið 2010 af sárum sínum eftir slæma lendingu í fallhlífastökki á vegum Skydive City. Miklir vindar voru sagðir ástæðan að lendingin heppnaðist svo illa með fyrrnefndum afleiðingum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×