Fótbolti

Þjálfari Króata: Sýndum að það eru meiri gæði í okkar liði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Það fór meiri orka í þennan leik hjá íslensku leikmönnunum en þeir hefðu kosið. Það mun hjálpa okkur í seinni leiknum,“ sagði Niko Kovac, þjálfari Króata, að leik loknum.

Kovac stóð á hliðarlínunni og kallaði skilaboð til sinna manna nánast frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

„Þetta eru auðvitað ekki úrslitin sem við vildum en þau eru ekki slæm heldur. Við vitum að við þurfum að skora í einvíginu til að komast áfram,“ sagði Kovac. Hann er bjartsýnn á möguleika sinna manna.

„Við sýndum að það eru meiri gæði í okkar liði. Varamenn okkar, sem komu inn á, sýndu að breiddin er meiri. Við getum þó spilað betur en í dag,“ sagið Kovac sem fannst sýnir menn einblína of mikið á lengri sendingar í stað styttri.

„Við áttum von á því að skora eftir að við urðum manni fleiri en markvörður Íslands varði vel úr nokkrum færum. Stundum er erfiðara að skora með ellefu leikmenn inni á vellinum en tíu,“ sagði Kovac. Hann endurtók að úrslitin væru ekki slæm.

„Nú höldum við heim þar sem við eigum von á góðum stuðningi og góðum úrslitum. Þá förum við á HM í Brasilíu.“

Kovac hrósaði vallarstarfsmönnum á Laugardalsvelli fyrir sitt framtak. Hann hefði reiknað með mun erfiðari aðstæðum en var afar sáttur við skilyrðin í kvöld.

„Hamingjuóskir til allra sem lögðu hönd á plóg til að gera völlinn kláran.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×