Viðskipti innlent

Blekktu Kauphöllina til að forðast "alvarlegar spurningar"

Stígur Helgason skrifar
Sérstakur saksóknari fullyrðir í ákæru á hendur fjórum fyrrverandi starfsmönnum Glitnis að verðbréfamiðlarinn Elmar Svavarsson og fleiri sakborningar hafi vísvitandi blekkt Kauphöllina þegar bankinn keypti eigin hlutabréf af eignarhaldsfélagi Birkis Kristinssonar, BK-44, í júlí 2008.

Í ákærunni segir að Glitnir hafi keypt bréfin á markaðsvirði, genginu 14,95, 22. júlí 2008. Bréfin hafi síðan í tvígang verið seld á milli reikninga innan bankans áður en BK-44 keypti þau aftur, síðar sama dag, á nákvæmlega sama verði og þau höfðu verið seld örskömmu áður. Staðan var því aftur orðin nákvæmlega sú sama og í upphafi dags.

Að því loknu hafi síðan Glitnir keypt bréfin á nýjan leik af félaginu, en þá á tæplega 113 prósentum hærra verði, eða á genginu 31,82, sem var nokkurn veginn í samræmi við munnlegt samkomulag sem saksóknari fullyrðir að hafi verið gert við Birki um að hann gæti ekki tapað á viðskiptunum.

Í ákærunni segir að Elmar hafi einungis tilkynnt fyrstu kaupin sem að framan greinir ― þau á markaðsvirðinu ― til Kauphallarinnar. Þau sem á eftir fylgdu hafi aldrei verið tilkynnt. Það brjóti gegn 30. grein laga um verðbréfaviðskipti, sem segi að tilkynna skuli öll viðskipti af þessu tagi.

Fullyrt er í ákæruskjalinu að þetta hafi verið gert „til að leyna hinu óvenjulega uppgjöri skaðleysissamningsins 22. júlí 2008 og þar með eðli hlutabréfaviðskiptanna.“

Þar segir enn fremur: „Síðari kaupin voru hins vegar ekki tilkynnt til kauphallar enda hefði gengið á viðskiptunum vafalaust vakið upp alvarlegar spurningar og vakið tortryggni á markaði. Sýnir þessi leynd vel huglæga afstöðu ákærðu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×