Red Bull heldur áfram yfirburðum sínum í formúlunni. Mark Webber verður á ráspól í Abú Dabí kappakstrinum á morgun en hann sló við liðsfélaga sínum Sebastian Vettel í tímatökunni í dag.
Sebastian Vettel tryggði sér heimsmeistaratitilinn fjórða árið í röð um síðustu helgi en þarf að sætta sig að ræsa annar á morgun. Vettel var mjög hraðskreiður alla helgina en tókst ekki að tryggja sig á ráspól í áttunda sinn á tímabilinu.
Þetta er í annað skiptið sem Mark Webber er á ráspól á tímabilinu en hann ræsti einnig í Japanskappakstrinum á dögunum. Þá varð að hann að sætta sig við annað sætið á eftir Vettel í sjálfum kappakstrinum.
Það er síðan önnur saga hvort að það boði eitthvað gott fyrir Webber að byrja á ráspól í Abú Dabí því aðeins einn af síðustu fjórum á ráspól hefur tekist að vinna. Það var Sebastian Vettel árið 2010. Hinir þrír hafa allir þurft að hætta keppni.
Ráspóllinn í Abú Dabí á morgun:
1. Mark Webber
2. Sebastian Vettel
3. Nico Rosberg
4. Lewis Hamilton
5. Kimi Raikkonen
6. Nico Hulkenberg
7. Romain Grosjean
8. Felipe Massa
9. Sergio Perez
10. Daniel Ricciardo

