Hátt í sextíu manns gengu á hæsta tind landsins, Hvannadalshnúk, í blíðskaparveðri síðustu helgi en þeir elstu í þeim hópi voru án efa svissnesku félagarnir Sämi Hügli sem er áttræður og Werni Hug sjötugur en þeim tókst að toppa tindinn um hádegi á laugardag í fylgd leiðsögumannsins Einars Rúnars Sigurðssonar.
Einar, sem gengið hefur hátt í þrjú hundruð sinnum á Hnúkinn, segist ekki muna eftir að svo gamall maður hafi áður komist á toppinn.
„Sämi vildi ekki segja mér hversu gamall hann væri fyrren við komum upp á topp, ég vissi að vinur hans væri sjötugur og grunaði að hann væri eitthvað eldri“ segir Einar en það kom honum á óvart hversu kraftmiklir þeir félagar voru á göngunni.
Sämi og Werni hafa ferðast víða um Evrópu í fjallgönguleiðöngrum en hinn áttræði Sämi hefur nú gengið á hæstu tinda allra Evrópulanda að Mónakó, San Marínó og Færeyjum undanskildum en þá tinda ætlar hann að sigra á þessu ári.
„Næst er það Færeyjar 27.júní á leiðinni til baka frá Íslandi með Norrænu“ sagði Sämi þegar toppnum var náð og dáðist að útsýninu í 2113 m hæð þar sem landið skartaði sínu fegursta.
Hann ætlar að skrifa bók um ferðalögin en aðspurður hvað taki við eftir að öllum hæstu tindum Evrópu er náð segist hann þá ætla að ganga upp til himna.