Sport

Dansari og keiluspilari féllu á lyfjaprófi

Hjörtur Hjartarson skrifar
Fimm íþróttamenn hafa fallið á lyfjaprófi Íþróttasambands Íslands það sem af er ári. Frá 2001 hafa að meðaltali innan við tveir fallið á lyfjaprófum sambandsins á hverju ári. Á meðal þeirra sem hafa fallið á árinu eru íþróttamenn í dansi og keilu.

Alls hafa 23 íþróttamenn verið dæmdir fyrir lyfjamisnotkun undanfarin 12 ár. Í flestum tilfellum tóku íþróttamennirnir inn efedrín eða stera. Í fimm tilfellum greindust kannabisefni í líkama íþróttamanna en þrátt fyrir að flokkast ekki sem frammistöðu aukandi lyf eru þau ólögleg. Einungis fjórir einstaklingar hafa hlotið keppnisbönn fyrir lyfjamisnotkun frá 2007 og því óvenju mörg mál á borði lyfjanefndar nú. Það hefur þó þrisvar sinnum gerst að fjórir íþróttamenn hafi fallið á lyfjaprófi á sama árinu.

Skúli Skúlason, formaður lyfjaráðs ÍSÍ sagði í samtali við fréttastofu í dag að um 50 lyfjapróf hafi verið tekin það sem af er ári sem er svipað og undanfarin ár.

 

Samkvæmt heimildum fréttastofu koma íþróttamennirnir sem um ræðir úr ólíkum áttum. Þeir keppa undir merkjum fimm mismundandi sérsambanda, þar á meðal Körfuknattleikssambandi Íslands, Danssambandi Íslands og Keilusambandi Íslands. Skúli vildi ekki tjá sig um hvaða ólöglegu efni hefðu greinst hjá íþróttamönnunum sem um ræðir nema að þau væru öll á bannlista. Málin fimm eru mislangt komin í kerfinu, fjögur hafa þegar verið send til dómstóls ÍSÍ og má reikna má með að dómur falli í tveimur þeirra í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×