Formúla 1

McLaren hafnar ásökunum um liðsskipanir

Birgir Þór Harðarson skrifar
Perez hefur verið eldsnöggur í síðustu mótum.
Perez hefur verið eldsnöggur í síðustu mótum.
McLaren-liðið í Formúlu 1 hafnar því að Sergio Perez hafi verið beðinn um að taka því rólega í spænska kappakstrinum og berjast ekki við Jenson Button undir lokin. Ökumennirnir börðust af kappi í Barein í apríl.

Perez var í upplagðri stöðu til að berjast við Button undir lok kappakstursins en fékk skilaboð frá liðinu um að hugsa nú vel um dekkin síðustu hringina. Hann þurfti því að slaka á og endaði tveimur sekúndum á eftir liðsfélaga sínum.

Einhverjir töldu að um dulmál hafi verið að ræða og að liðið hafi ekki viljað að Perez myndi berjast við Button eins og í Barein. McLaren hafnar þessu og segir að þeir hafi í alvöru haft áhyggjur af dekkjaslitinu.

"Checo [Perez] sagði sjálfur að dekkin væru orðin ónýt," sagði Martin Whitmarsh, liðstjóri McLaren, þegar hann var beðinn um að útskýra aðstæður. "Við vildum ekki að hann myndi berjast aðeins til að dekkin myndu eyðileggjast gjörsamlega."

"Dekkin voru svo á endanum nánast eyðilögð. Svo þetta var ekki taktísk skipun heldur til að koma honum í mark."

Perez hefur einnig neitað að um liðsskipanir hafi verið að ræða. Það gerði hann á Twitter á mánudag. "Vil bara segja öllum að talstöðvarskilaboðin voru aðeins um dekkin. Aldrei liðskipanir. Get ekki beðið eftir Mónakó."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×