Sport

Eygló á sínum næstbesta tíma og varð í áttunda sæti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Ægi hafnaði í áttunda sæti í úrslitasundinu á EM í 25 metra laug í Danmörku í dag. Hún var 13/100 úr sekúndu frá Íslandsmeti sínu.

Eygló setti nýtt Íslandsmet í undanúrslitum í gær er hún kom í mark á 59,26 sekúndum. Tíminn var sá áttundi besti hjá þeim tíu sundkonum sem tryggðu sér sæti í úrslitunum.

Eygló kom í mark í dag á tímanum 59,39 sekúndum en sigurvegarinn var heimakonan Mie Nielsen á 55,99 sekúndum. Á bilinu 3000-4000 heimamenn voru að vonum afar sáttir á áhorfendapöllunum.

Nielsen, sem er aðeins 17 ára gömul, gerði sér lítið fyrir og setti glæsilegt Evrópumet og hefur engin kona synt 100 metra baksund hraðar eftir að flot/plaxtbúningarnir voru bannaðir 1. janúar 2010. Heimsmetið í greininni er í eigu Shiho Sakai frá Japan, 55,25 sekúndur, frá 2009.

Þjálfari Mie er Skagamaðurinn Eyleifur Jóhannesson sem starfar ì Álaborg og á 3 sundmenn í danska liðinu hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×