Enski boltinn

Framherjakrísa hjá Englendingum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Welbeck í æfingaleik með United á dögunum.
Welbeck í æfingaleik með United á dögunum. Nordicphotos/AFP
Danny Welbeck er eini framherjinn sem Roy Hodgson, landsliðsþjálfara Englendinga, stendur til boða fyrir æfingalandsleik gegn Skotum á miðvikudaginn.

Wayne Rooney hefur ekkert spilað með Manchester United á undirbúningstímabilinu vegna meiðsla. Þá er Andy Carroll, framherji West Ham, en að jafna sig eftir meiðsli á hæl.

Daniel Sturridge hjá Liverpool er nýbyrjaður að æfa af krafti með Liverpool eftir ökklameiðsli og Jermain Defoe haltraði af velli snemma leiks í æfingaleik Tottenham og Monaco um helgina.

Danny Welbeck, framherji Manchester United, er því eini framherjinn sem Hodgson stendur til boða af þeim sem hann hefur notað í verkefni landsliðsins. Reikna má með því að Wilfried Zaha verði kallaður í hópinn auk þess sem Alex Oxlade-Chamberlain og Theo Walcott verði í aðalhlutverkum í sóknarleiknum.

Þá þarf Hodgson einnig að búa sig undir að leikmenn dragi sig úr hópnum enda fer fyrsta umferð í ensku úrvalsdeildinni fram annan laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×