Viðskipti innlent

Óvissa um fjármögnun aðgerðarinnar

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir óvissu ríkja um fjármögnun aðgerðar ríkisstjórnarinnar til lækkunar á verðtryggðum húsnæðislánum.

„Það sem slær mann fyrst er óvissan um fjármögnunina. Það búið að koma hér á banka- og fjársýsluskatt sem var gert í tíð síðustu ríkisstjórnar," segir Katrín. „Það er líka búið að tilkynna að þrotabú föllnu bankanna ætli í mál út af því svo það er ákveðin óvissa um fjármögnun ef þetta gengur eftir. Og með þessum aðgerðum er kannski verið að festa þrotabúin í sessi til fjögurra ára. Hvaða áhrif hefur það á afnám á gjaldeyrishafta?"

Hvað séreignasparnaðinn varðar segir Katrín það kannski ekki mikla ofrausn að leyfa fólki að færa sparnaðinn úr einum vasa yfir í annan. „Ríki og sveitarfélög bera þar ákveðin kostnað í gegnum það að létta skattgreiðslum af því þannig að það fellur ákveðin kostnaður á þau. Svo er spurning hvort þetta gagnist ekki fyrst og fremst hátekjufólki sem hefur verið að greiða í séreignasparnað.“

Katrín segir að mikill tími hafi farið hjá fjármálaráðherra og forsætisráðherra í að tala um aðgerðir fyrri ríkisstjórnar. „Ef við skoðum heildina á því þá voru það hátt í 285 milljarðar og þar af voru 130 vegna beinna aðgerða en ekki vegna endurútreiknings. Það verður að setja þessa hluti í samhengi við það sem er þegar búið að gera,“ segir Katrín. „Við munum skoða þetta mál þegar það kemur fram og þá er hægt að fara betur yfir þær spurningar sem vakna því þær eru auðvitað margar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×