Innlent

SAF fordæma ákvörðun um að minnka hvalaskoðunarsvæði

Hvalaskoðun.
Hvalaskoðun.
„Samtök ferðaþjónustunnar fordæma ákvörðun sjávarútvegsráðherra að minnka hvalaskoðunarsvæðið í Faxaflóa án samráðs við hvalaskoðunarsamtökin og Samtök ferðaþjónustunnar.“

Þetta kemur fram í tilkynningu Samtaka ferðaþjónustunnar sem var send á fjölmiðla. Tilefnið er að Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra, minnkaði aftur griðasvæði hvala eftir að forveri hans í embætti, Steingrímur J. Sigfússon, stækkaði svæðið allverulega skömmu áður en hann lét af embætti.

Í tilkynningu samtakanna segir: „Hvalaskoðun er stærsta auðlind ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu með árlega veltu upp á tæpan milljarð og skapar í umhverfi sínu hundruð starfa. Með ákvörðun sjávarútvegsráðherra er hagsmunum og framtíð greinarinnar fórnað fyrir sérhagsmuni örfárra einstaklinga sem hafa takmarkaðar tekjur af hrefnuveiðum.“

Svo segri að í áliti nefndar um stefnumörkun í hvalveiðimálum, sem skipuð var af fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, kemur fram  að meirihluti hennar telji ljóst að umfang hvalaskoðunar og þjóðhagslegt mikilvægi hennar hafi aukist á undanförnum árum og mikilvægt sé að umgjörð hvalaskoðunar og hvalveiða sé með þeim hætti að ásættanlegt teljist fyrir báðar atvinnugreinar. 

Í tilkynningu segir að nefndin hafi lagt til að griðasvæðið yrði stækkað þannig að miðað væri við beina línu frá Garðskagavita að Arnarstapa.

„Ákvörðun ráðherra gekk þó skemur til að fara bil beggja og kemur því ákvörðun um minnkun griðasvæðisins nú ferðaþjónustunni í opna skjöldu, enda hafa engar rannsóknir sýnt að hvalaskoðun hafi áhrif á hrefnuveiðar,“ segir í tilkynningu.

Svo segir: „SAF krefjast þess að hvalaskoðunarsvæðið við Faxaflóa verð nú þegar fært til fyrra horfs.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×