Íslenski boltinn

Heimskulegt hjá Aaron Spear

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Daníel
„Hann átti ekki að bjóða upp á þetta. Þetta var bara mjög heimskulegt hjá honum," segir Kjartan Henry Finnbogason leikmaður KR um rauða spjaldið hjá Aaron Spear leikmanni ÍBV í bikarleik liðanna í gær.

Kjartan ræddi um atvikið í útvarpsþættinum Reitarboltanum á 433.is í dag. Spear sá rautt fyrir að stugga við Gunnari Þór Gunnarssyni, varnarmanni KR. Atvikið má sjá hér.

„Maður yrði örugglega pirraður og reiður ef þetta hefði verið öfugt og við hefðum fengið rautt. Það hefur verið svo mikil umræða um þetta eftir það sem gerðist uppi á Skaga," segir Kjartan. Vísaði framherjinn þar til rauða spjaldsins sem Jóhannes Karl Guðjónsson fékk fyrir að hrinda Ármanni Pétri Ævarssyni leikmanni Þórs.

„Ég held að dómarinn hafi ekki haft annan kost en að reka hann útaf," sagði Kjartan. Hann benti á að oft væri kvartað yfir ósamræmi en nú virtust íslensku dómararnir vera samkvæmir sjálfum sér.

„Það er eins og svo oft hjá dómurunum að það eru aldrei allir ánægðir," sagði Kjartan.

Kjartan skoraði tvö mörk eftir að hafa komið af bekknum. Aðspurður hvort honum hefði fundist merkilegt að skora framhjá fyrrum landsliðsmarkverði Englands sagði Kjartan:

„Ungu strákunum í liðinu fannst það svolítið merkilegt," sagði framherjinn.

„Ég pældi meira í því að hann væri orðinn fjörtutíu og eitthvað ára gamall og erfitt fyrir hann að vera að skutla sér í hundrað vindstigum," sagði Kjartan Henry léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×