Innlent

Mun fleiri leita til Stígamóta

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs hafa 170 konur leitað í fyrsta skipti til Stígamóta vegna kynferðisofbeldis.
Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs hafa 170 konur leitað í fyrsta skipti til Stígamóta vegna kynferðisofbeldis. MYND/GETTY
Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs hafa 170 einstaklingar leitað í fyrsta skipti til Stígamóta vegna kynferðisofbeldis. Það er um 64% heildarfjölda kvenna sem leituðu þangað í fyrsta skipti í fyrra.

264 konur leituðu til Stígamóta í fyrsta sinn í fyrra en í ár stefnir talan í að verða mun hærri. Anna Þóra Kristinsdóttir, starfskona hjá Stígamótum, segir að þessi aukning sé jákvæð. Hún þýði að fleiri séu að leita sér aðstoðar vegna sinna mála.

„Það varð aukning hjá okkur í kjölfar mikillar fjölmiðlaumræðu fyrr á árinu, til dæmis vegna máls Karls Vignis. Ég veit að fleiri stofnanir fundu fyrir auknu álagi í framhaldi af því. Við höfum aldrei fundið fyrir svona mikilli aðsókn fyrr,“ segir Anna Þóra.

Anna segir þó að það séu margir áhrifaþættir sem ráði því hvort konur leiti til Stígamóta. Til dæmis séu sumarmánuðirnir oft rólegir, sem og tími í kringum stórhátíðir. Aðsókn í viðtöl getur þó verið mjög misjöfn eftir mánuðum og miklar sveiflur geta verið í þessum efnum.

Nánari upplýsingar og ársskýrslu má sjá á heimasíðu Stigamóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×