Innlent

Þekktir og valdamiklir menn kaupa vændi

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Þekktir og valdamiklir menn eru meðal þeirra sem kaupa sér vændi á Íslandi. Þetta segir kona sem stundaði vændi í Reykjavík um nokkra ára skeið. Konan vildi ekki koma fram undir nafni til að vernda fjölskyldu sína. Hún segir einnig að almenningur á Íslandi sé ekki tilbúinn fyrir opinskáa umræðu um vændi. Konan sagði sögu sína í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld og í Íslandi í dag.

Konan leiddist út í vændi vegna slæmrar fjárhagsstöðu. Hún var komin í öngstræti - reikningar hlóðust upp og rafmagn hafði verið tekið af heimili hennar. Konunni bauðst færi á að bæta fjárhagsstöðu sína með því að selja líkama sinn í vændi. Hún segir allar tegundir manna leita kaupa sér vændi á Íslandi.

„Þeir sem kaupa vændi eru þó yfirleitt menn sem eiga peninga. Þetta eru mikið menn í valdastöðum og þekktir menn í íslensku samfélagi. Ég var með einn kúnna sem var í sjónvarpinu í þessari viku og líka í þeirri síðustu. Ég sé hann alltaf annað slagið,“ segir konan og nefnir sláandi dæmi úr heimi vændis á Íslandi.

„Það eru meira að segja feður sem leita eftir kynlífi fyrir syni sína. Drengurinn sé orðinn 16 ára gamall og nú sé kominn tími til að ,gera það' - að þetta væri frábær 16 ára afmælisgjöf. Ég sagði nei við því.“

Nafngreina á þá sem kaupa kynlíf

Hún segir það ólýðandi að einstaklingar sem brjóta lög og kaupa vændi séu ekki nafngreindir. „Við skiljum það ekki að það skuli vera nafnleynd á mönnum og konum sem kaupa sér aðgang að líkama annarra einstaklinga. Þetta á ekki að eiga sér stað.“

Konan telur að valdhafar í samfélaginu séu að vernda sína. „Þetta eru forstjórar, lögreglumenn, sjúkraflutningamenn og fréttamenn. Menn úr öllum áttum sem hafa hagsmuna að gæta. Það á að birta nöfn þessara manna. Skömmin er þeirra, skömmin er ekki okkar.“

Nánar má heyra sögu þessarar konu í myndbandinu hér að ofan, og í Ísland í dag-þætti kvöldsins hér fyrir neðan.




Tengdar fréttir

Íslenskir feður kaupa vændi fyrir syni sína

Kona á miðjum aldri sem fór að stunda vændi fyrir nokkrum árum verður í viðtali við í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Konan er nú hætt og segist aldrei ætla að selja líkama sinn aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×