Innlent

Heimilistryggingin bætir tjón vegna eldstæða

Haraldur Guðmundsson skrifar
Síðastliðinn laugardag varð sprenging í íbúðarhúsnæði í Hveragerði vegna etanól-eldstæðis.
Síðastliðinn laugardag varð sprenging í íbúðarhúsnæði í Hveragerði vegna etanól-eldstæðis. Mynd/Stöð2
„Þegar það verður sprenging eða eldur kviknar út frá eldstæðum þá er enginn vafi á því að hefðbundnar heimilistryggingar ættu að bæta það tjón sem verður á innbúi og einnig greiða sjúkrakostnað vegna slysa upp að vissu hámarki,“ segir Geirarður Geirarðsson, forstöðumaður eignatjóna hjá Sjóvá, spurður hvort hefðbundnar heimilistryggingar bæti tjón eins og það sem varð í Hveragerði síðastliðinn laugardag þegar sjö manns slösuðust og innbú skemmdist þegar sprenging varð vegna etanól-eldstæðis.

„Ef tjón verður á fasteigninni sjálfri myndi það falla undir lögboðna brunatryggingu,“ segir Geirarður.

Guðmundur Gunnarsson, yfirverkfræðingur Mannvirkjastofnunar, sem fer fyrir eldvarnarsviði stofnunarinnar, segir etanól-eldstæði vera stórhættuleg.

„Við sjáum eitt til tvö slæm slys tengd etanól-eldstæðum á hverju ári og heyrum einnig af mörgum smávægilegri slysum sem koma ekki inn á okkar borð,“ segir Guðmundur.

Hann segir að slys sem þessi geti aðallega orðið með tvennum hætti.

„Í fyrsta lagi verða slys þegar etanóli er hellt á heit eldstæði. Í öðru lagi þegar eldsneytinu er hellt framhjá skálinni og það fer niður í botn eldstæðisins þar sem það gufar upp og þá getur kviknað í gufunum og sprenging orðið.“

Guðmundur segir fólk einnig þurfa að varast slys sem tengjast öðrum eldstæðum en þeim þar sem etanóli er brennt.

„Flest slys í tengslum við hefðbundnar kamínur verða þegar reykháfar eru ekki nógu vel einangraðir þegar þeir fara í gegnum þök og veggi. Þá getur hitinn frá reykháfnum kveikt í nærliggjandi timbri,“ segir hann og bætir því við að slys geti einnig orðið þar sem kamínur eru settar alveg upp að vegg í námunda við brennanleg efni.

„Það sama á við þegar hefðbundnir innbyggðir arnir eru of efnislitlir þannig að fjarlægð út í brennanleg efni er of lítil.“

Spurður um hvar fólk geti nálgast upplýsingar um þær hættur sem fylgja eldstæðum bendir Guðmundur á að seljendur eldstæða séu skyldugir til að láta leiðbeiningar fylgja með kaupum á þeim.

„Síðan höfum við verið með leiðbeiningar inni á síðu Mannvirkjastofnunar og eftir þetta atvik í Hveragerði settum við meiri kraft í þær og ætlum að setja nákvæmari leiðbeiningar um hvað fólk eigi að forðast þegar kemur að meðhöndlun þessara eldstæða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×