Erlent

Voyager 1 kominn út fyrir sólvindshvolfið

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Voyager 1 var skotið á loft þann 5. september 1977.
Voyager 1 var skotið á loft þann 5. september 1977. mynd/getty
Bandaríski geimkanninn Voyager 1 er kominn út fyrir sólvindshvolfið svokallaða.

Bandaríska geimferðastofnunin greindi frá þessu í kvöld en Voyager einum var skotið á loft þann 5. september 1977. Ferðalagið hefur því tekið 36 ár og er kanninn nú staddur rúmlega 19 milljarða kílómetra frá sólu. Um leið er hann orðinn fyrsti manngerði hluturinn sem farið hefur út fyrir sólvindshvolfið og ferðast hann út í geiminn milli stjarna í Vetrarbrautinni.

Þessu fagna vísindamenn og telja þeir út frá mælingum að Voyager 1 hafi náð áfanganum 25. ágúst í fyrra. Það hefur hins vegar tekið langan tíma að vinna úr upplýsingunum sem kanninn sendir frá sér og því hefur ekkert fengist staðfest fyrr en nú, en merkin úr Voyager eru mjög dauf þegar þau berast til jarðar en það tekur þau rúmlega 17 klukkustundir að berast.

Í umfjöllun um atburðinn segir á Stjörnufræðivefnum að þrátt fyrir að kanninn hafi yfirgefið sólvindshvolfið hafi hann ekki formlega yfirgefið sólkerfið sjálft. Voyager er sem stendur í ríki halastjarnanna og er sagður verða þar næstu árhundruð, eða árþúsund.

Nánar má lesa um þennan merkilega áfanga á Stjörnufræðivefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×