Innlent

Ég er bara lítil stelpa að vestan

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Mynd/ Anton Brink.
Hún ákvað ung að verða prestur enda kveðst hún hafa hangið í hempufaldi föður síns sem barn og þótt starfssvið hans afar áhugavert. Nú hefur hún verið biskup Íslands í níu mánuði og forvitnilegt að vita hvernig henni líkar. Hvernig líður þér í embætti biskups? „Mjög vel. Þetta er fjölbreytt starf.

Hvernig líður þér í embætti biskups?

„Mjög vel. Þetta er fjölbreytt starf. Suma daga er kannski fullmargt að takast á við en hins vegar finnst mér allt bara svo skemmtilegt - enn þá að minnsta kosti."

Er ekki dálítið ólíkt að sitja í prestsetrinu í Bolungarvík, einu húsi uppi á hól við hlið kirkjunnar, eða hér við aðalverslunargötu borgarinnar?

„Já, það er annar lífstaktur. Þegar maður er prestur í sókn þá er viðfangsefnið að sinna sóknarbörnunum þar en hér hef ég samband við presta og sóknarfólk út um allt land. Um þessar mundir er ég til dæmis að vísitera í Kjalarnesprófastdæmi, byrjaði á Bessastöðum 17. mars og var í Reynivallaprestakalli á pálmasunnudag, þar eru þrjár kirkjur. Eftir páska fer ég í Garðinn, Sandgerði, Keflavík og Njarðvík. Svona heldur þetta áfram og endar í Grindavík 9. júní. Garðabær og Hafnarfjörður eru inni í þessu."

Alltaf ný og ný ræða?

(Hlæjandi) „Já, já, alltaf ný og ný ræða, enda nýjar og nýjar aðstæður og alltaf eitthvað að gerast."

Kemur fólk hingað inn af götunni og skriftar fyrir þér?

„Skriftar? Já, það má kannski segja það. Þrjá til fjóra daga í viku er ég meira og minna í viðtölum sem fólk sem hefur pantað tíma. Þau eru af öllum toga."

Gott að konur urðu prestar

Heldurðu að það breyti embættinu að þú ert kona?

„Já, ég held að þrátt fyrir öll kerfi og allt sem við setjum niður á blað, svo sem reglur og lög, mótist starf alltaf af þeim einstaklingi sem sinnir því. Ég horfi á lífið og starfið með kvenmannsaugum og við konur lítum á ýmislegt frá öðrum sjónarhóli en karlar. Ég held líka að það hafi áhrif að það sé kona í brúnni. Það skiptir máli fyrir samfélagið að konur séu sýnilegar eins og karlar. Meðal annars þess vegna tel ég gott að konur urðu prestar og kona biskup."

Varst þú ekki meðal fyrstu kvenna sem tóku prestsvígslu á Íslandi?

„Ég var númer þrjú. Fyrstu tvær voru Auður Eir og Dalla dóttir hennar. Ég var vígð árið 1981, í september."

Hvernig metur þú stöðu íslensku þjóðkirkjunnar? Hefur tekist að snúa vörn í sókn eftir áföll sem hún varð fyrir vegna kynferðisofbeldismála?

„Bæði og. Einhver skaði hefur skeð og hann verður kannski aldrei bættur. Hins vegar held ég að almennt sé meiri jákvæðni gagnvart kirkjunni en var fyrir einu ári. Þá tilfinningu fæ ég í samtölum mínum við fólk og könnun sem gerð var á þessu ári sýndi nálina fara örlítið upp á við. En við megum aldrei sofna á verðinum heldur þurfum að vanda okkur. Lífið heldur alltaf áfram og ný viðfangsefni taka við."

Nú er talað um að færri börn fermist en áður, sérstaklega hér í Reykjavík. Hefur þú áhyggjur af því?

„Ekki áhyggjur, en mér finnst það umhugsunarvert og tel að við þurfum að skoða hvað við getum gert betur. Kirkjunnar fólk er, að mínum dómi, að vinna gott starf með fermingarbörnum úti um allt land. Börnin mæta í kirkjuna og kynnast starfi hennar og flest fara í fermingarbúðir í nokkra daga. Við erum að útbúa nýtt kennsluefni og koma því til skila þannig að börnin skilji það. Þegar ég var í fermingarfræðslu átti ég að læra þrjátíu sálma utan að, ritningarvers og hitt og þetta en í nútímanum eru aðrar aðferðir notaðar, myndbönd og alls konar efni. En eitt af því sem hefur áhrif er að mun erfiðara er að vera foreldri núna en var fyrir nokkrum áratugum, það er svo mikil krafa um að þeir fylgi börnunum í öllu og vissulega vill kirkjan hafa gott samstarf við foreldra barnanna og það umhverfi sem þau eru í."

Telur þú skólakerfið hafa haft áhrif á að fækkað hefur í fermingarbarnahópunum?

„Ég tel að samfélagið allt og kirkjan hafi lifað í dálitlum ótta við nýja strauma í samfélaginu og finnst að við ættum heldur að snúa óttanum í virðingu og jákvæðni."

Hvað áttu við?

„Ég get tekið dæmi sem ég þekki úr Bolungarvík. Þar er fullt af útlendingum með ólíka trú. Börn úr þessum fjölskyldum eru í sama bekk og börnin sem eru í fermingartímum. Ég bauð þeim að vera með í fermingarfræðslunni, í samráði við foreldrana, þó að þau fermdust ekki, í stað þess að gera þetta að einhverju vandamáli. Mér finnst að við verðum sem þjóð að ákveða út frá hvaða gildum við viljum ganga. Þess vegna er svo mikilvægt að það sé sátt um stjórnarskrána og að við byggjum hana á þeim grunni sem við þekkjum. Sá grunnur útilokar engan frá því að vera með okkur í þessu samfélagi.

Ef einhver biður um þjónustu kirkjunnar þá spyrja starfsmenn hennar ekki: „Bíddu, ert þú í þjóðkirkjunni? Ert þú kristin manneskja?" Við þjónum bara fólki, alveg sama í hvaða trúfélagi það er. Þessi tenging er svo skýr í litlum samfélögum en ekki eins hér í Reykjavík. Þess vegna er umræða um hvort samstarf eigi að vera milli kirkju og skóla miklu meiri hér í þéttbýlinu en á smærri stöðum."

Ömmutáknið

Snúum okkur að þinni persónu. Hver er Agnes M. Sigurðardóttir? „Ég er bara lítil stelpa að vestan. Pabbi var prestur á Ísafirði. Ég hékk ekki í pilsfaldi móður minnar heldur í hempufaldi hans, fannst allt sem hann gerði svo áhugavert að ég ákvað ung að verða prestur eins og hann. Ég útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði 1975 og þá fór ég fyrst suður, í háskólann, en hef varið fjörutíu árum af ævi minni á Vestfjörðum í því stórkostlega umhverfi. Svo eignaðist ég mann og þrjú börn sem eru orðin fullorðin og öll flutt hingað suður. Þau fóru reyndar að heiman sextán ára í Menntaskólann á Akureyri og voru ekki mikið heima eftir það. Við hjónin skildum og ég var ein í Bolungarvík í átta ár. Ég á eitt barnabarn og finnst voða gaman að vera amma þótt lítill tími gefist til að vera í því hlutverki. Ömmubarnið er drengur, tveggja ára síðan í desember. Yfirleitt er ég með kross um hálsinn og alltaf þegar hann sér mig grípur hann í þennan kross. Heldur örugglega að hann sé ömmutákn."

Það hefur komið fram annars staðar að þú hafir farið í gegnum tólf spora kerfið. Stríddir þú við áfengisfíkn?

„Nei, en kirkjan býður upp á tólf spor sem andlegt ferðalag, án þess að fólk hafi einhver skilgreind vandamál. Það kemur saman og fer í gegnum líf sitt og lán eða ólán. Ég tel að það hafi gagnast mér og leiddi slíkt starf í átta ár fyrir vestan."

Hver eru svo helstu áhugamálin fyrir utan starfið?

„Ég stunda engin áhugamál en það sem ég hef mest gaman af er fólk og mannlíf. Um það fræðist ég með því að tala við fólk og lesa ævisögur. Svo lærði ég á píanó í uppvextinum og spila stundum, helst þegar enginn heyrir til."

Færðu ekki að heyra að þú sért lík Vigdísi Finnbogadóttur?

„Jú, það er oft sagt við okkur báðar. Þó veit ég ekki til að við séum sérstaklega skyldar, umfram það sem flestir Íslendingar eru. Mér finnst ekki slæmt að vera líkt við Vigdísi Finnbogadóttur. Það gæti ekki verið betra."

Einhver lokaorð til þjóðarinnar á páskum?

„Það gerðust miklir atburðir í sögu kristninnar frá skírdegi til páskadags. Við getum heimfært þá upp á lífið sjálft. Þegar við erfiðleika er að etja er gott að líta til upprisunnar og nú hefur þjóðin gengið í gegnum efnahagsþrengingar, hálfgerðan föstutíma, þá er gott að hafa páskasólina fyrir augum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×