Fótbolti

Þrjú stig í fyrsta leik hjá Guardiola

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Bayern München.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Bayern München. Mynd/AFP
Bayern München byrjaði titilvörnina í þýsku úrvalsdeildinni með 3-1 sigri á Mönchengladbach í opnunarleik Bundesligunnar í München í kvöld.

Þetta var fyrsti deildarleikur Bayern-liðsins undir stjórn Spánverjans Pep Guardiola sem gerði frábæra hluti með Barcelona-liðinu á árunum 2008 til 2012 en tók við þýsku meisturunum í sumar.

Bayern byrjaði leikinn frábærlega og var komið í 2-0 á fyrstu sextán mínútum leiksins. Arjen Robben skoraði fyrsta markið á 12. mínútu eftir sendingu Franck Ribéry og fjórum mínútum síðar bætti Mario Mandzukic við öðru marki.

Brasilíumaðurinn Dante varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark á 41. mínútu og staðan var því 2-1 í hálfleik.

Austurríkismaðurinn David Alaba innsiglaði síðan sigurinn með marki úr vítaspyrnu á 60. mínútu sem dæmd var á varnarmann Gladbach fyrir að handleika boltann í teignum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×