Íslenski boltinn

Klúðruðu víti og skoruðu sjálfsmörk | Myndband

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Blikar voru sjálfum sér verstir í heimsókn hjá Val á Hlíðarenda í Pepsi-deild kvenna í gær. Liðið tapaði leiknum 2-1 þrátt fyrir að vera í aðalhlutverki við markaskorun.

Eftir markalausan fyrri hálfleik fengu gestirnir úr Kópavogi vítaspyrnu á 54. mínútu. Rakel Hönnudóttir fór á punktinn en Þórdís María Aikman las landsliðskonuna eins og opna bók og varði spyrnuna með tilþrifum út við stöng.

Valskonur komust svo í 2-0 með tveimur mörkum Blika. Fyrst varð miðvörðurinn Ragna Björg Einarsdóttir fyrir því óláni að stýra misheppnuðu skoti Dóru Maríu Lárusdóttur í netið. Skömmu síðar var það varnarmaðurinn Lilja Dögg Valþórsdóttir sem setti boltann með hnénu í eigið net.

Mark Gretu Mjallar Samúelsdóttur úr hornspyrnu í viðbótartíma kom of seint og Valur komst upp fyrir Blika í annað sæti deildarinnar með sigri. Umfjöllun um leikinn og myndasyrpu má sjá hér.

Leikurinn var sýndur beint á Stöð 2 Sport 3 og Vísi í gær. Helstu atvik úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×