Fótbolti

Kosið á milli Ronaldo, Messi og Ribery

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franck Ribery átti frábært tímabil með Bayern Munchen.
Franck Ribery átti frábært tímabil með Bayern Munchen. Mynd/NordicPhotos/Getty
Gareth Bale er ekki meðal þeirra þriggja sem koma til greina sem besti knattspyrnumaður Evrópu 2013 en UEFA gaf út í dag hverjir urðu þrír efstu í kjörinu. Það var einnig gefið upp hvaða leikmenn enduðu í sætum fjögur til tíu.

Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid, Lionel Messi hjá Barcelona og Franck Ribery hjá Bayern Munchen urðu í þremur efstu sætunum en kosið verður á milli þeirra þriggja 29. ágúst næstkomandi. Það eru valdir blaðamenn frá öllum aðildarlöndum UEFA sem hafa atkvæðarétt í þessu kjöri.

Robin van Persie átti frábært fyrsta tímabil með Manchester United en nær samt bara tíunda sætinu í kjörinu og bæði Robert Lewandowski og Zlatan Ibrahimovic eru sem dæmi fyrir ofan hann.

Gareth Bale er aðeins í áttunda sæti en hann er hugsanlega að verða dýrasti knattspyrnumaður heims fari svo að Tottenham selji hann til Real Madrid.

Andres Iniesta var valinn besti knattspyrnumaður Evrópu á síðasta ári en hann er ekki meðal tíu efstu í ár.

Leikmenn í 4. til 10. sæti í kjörinu:

4. Arjen Robben (Hollandi) - Bayern Munchen

5. Robert Lewandowski (Póllandi) - Borussia Dortmund

6. Thomas Muller (Þýskalandi) - Bayern Munchen

7. Bastian Schweinsteiger (Þýskalandi) - Bayern Munchen

8. Gareth Bale (Wales) - Tottenham

9. Zlatan Ibrahimovic (Svíþjóð) - Paris St-Germain

10. Robin van Persie (Hollandi) - Manchester United




Fleiri fréttir

Sjá meira


×