Enski boltinn

Suarez þarf á hjálp að halda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jamie Carragher.
Jamie Carragher. Nordic Photos / Getty Images
Jamie Carragher, leikmaður Liverpool og liðsfélagi Luis Suarez, segir að sá síðarnefndi þurfi fyrst og fremst á hjálp að halda.

Suarez beit Branislav Ivanovic, leikmann Chelsea, í leik liðanna um helgina en það er í annað skipti á ferlinum sem hann verður uppvís að því að bíta annan leikmann.

Hann hefur verið í sviðsljósinu vegna þessa síðustu daga og gagnrýndur harkalega fyrir framkomu sína.

„Í stað þess að allt landið leggist gegn honum væri nær að bjóða honum hjálp,“ sagði Carragher í samtali við Daily Mail í dag.

„Luis veit að hann gerði alvarleg mistök og brást sjálfum sér. Nú er talað um hann eins og rotið epli og vandamál fyrir Liverpool.“

„Það er eins og að hann sé eini leikmaðurinn sem hafi lent í vanda. Það er einfaldlega ekki rétt. Graeme Souness, Robbie Fowler og ég sjálfur höfum áður verið í erfiðri stöðu en allir nutum við stðunings félagsins.“

Carragher tók þó fram að hann væri ekki að verja hegðun Suarez enda óafskanleg. „En er þetta verra en tækling sem gæti ógnað ferils annars leikmanns? Ég veit hvernig það er að fótbrotna eftir hættulega tæklingu. Lucas Neill kostaði mig sex mánuði af mínum ferli og ég hefði frekar viljað vera bitinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×