Viðskipti innlent

Grunur um ólöglegt samráð

Kristján Hjálmarsson skrifar
Samkeppniseftirlitið er með húsleit hjá Samskipum.
Samkeppniseftirlitið er með húsleit hjá Samskipum.

Samkeppniseftirlitið hefur í morgun framkvæmt húsleit hjá Eimskipafélagi Íslands hf., Samskipum og tilteknum dótturfélögum þessara fyrirtækja. 

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu kemur fram að húsleitin sé liður í rannsókn sem ætlað er að varpa ljósi á hvort vísbendingar um ólöglegt samráð fyrirtækjanna og hugsanlega misnotkun á markaðsráðandi stöðu eigi við rök að styðjast. Til húsleitanna var aflað úrskurða frá héraðsdómi Reykjavíkur.

Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins ásamt lögreglumönnum komu á skrifstofu Samskipa við Kjalarvog skömmu fyrir tíu í morgun. Skömmu síðar mættu starfsmenn eftirlitsins einnig í höfuðstöðvar Eimskip við Klettagarða.

Í tilkynningu frá Samskip kemur fram að að Samkeppniseftirlitið hafi komið í morgun og hafið húsleit. Starfsfólk Samskipa vinnur nú að því að afla umbeðinna gagna í fullu samráði við starfsmenn eftirlitsins. Stjórnendur og starfsfólk Samskipa leggja áherslu á gott samstarf við Samkeppniseftirlitið. 

Ekki hefur náðst í Pál Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, vegna málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×