Innlent

Laxeldi í sjó verði stöðvað

Kristján Már Unnarsson skrifar
Orri Vigfússon, helsti baráttumaður fyrir verndun villtra laxastofna, vill að stjórnvöld stöðvi nú þegar allt laxeldi í sjó. Hann óttast umhverfisslys.

Laxeldi í sjókvíum stefnir í að verða umfangsmikil atvinnugrein, eins og fram kom í frétt Stöðvar 2 úr Arnarfirði í fyrradag. Orri Vigfússon vill að stjórnvöld grípi nú þegar í taumana.

"Mér finnst að það eigi að stoppa þetta strax, já," segir Orri í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

Hann hefur í aldarfjórðung leitt alþjóðlega baráttu fyrir verndun laxastofna við Norður-Atlantshaf og spjótin beinast nú að laxeldi í sjó. Orri segir að sjókvíaeldi hafi farið illa með náttúruna í löndum eins og Noregi, Kanada, Skotlandi og Írlandi.

"Þetta hefur skilið allsstaðar eftir sig sviðna jörð. Laxastofnar á viðkomandi svæðum hafa verið rústaðir og þetta er iðnaður sem er ekki sjálfbær," segir Orri.

Hérlendis hafa stjórnvöld sem málamiðlun girt fyrir laxeldi í þeim flóum og fjörðum sem helstu laxveiðiár renna í. Þannig er það bannað í Faxaflóa, Breiðafirði, Húnaflóa, Skagafirði, Skjálfanda, Þistilfirði, Bakkaflóa, Vopnafirði og Héraðsflóa en leyft á takmörkuðum svæðum á Vestfjörðum, í Eyjafirði, Öxarfirði og á Austfjörðum, ýmist fyrir lax- eða þorsk.

Orri kveðst ekki hafa á móti laxeldi uppi á landi eða í lokuðum kvíum þar sem hægt er að hafa stjórn á hlutunum. "Í sjó er engu hægt að stjórna. Þar verða slys." Hann segir að hjá Arnarlaxi verði norskur eldislax notaður. Hann sé allt öðruvísi og framandi og eigi ekki heima í íslenskri náttúru. "Hann sleppur alltaf út á þessum stöðum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×