Evrópuráðsþingið hefur staðfest ályktun laga- og mannréttindanefndar þess um að stjórnmálamenn verði verndaðir fyrir ákærum vegna pólitískra ákvarðana sem þeir tóku í embætti sem kjörnir fulltrúar, en tilefnið er m.a Landsdómsréttarhöldin gegn Geir Haarde.
Evrópuráðsþingið samþykkti í dag þessa þingsályktun sem byggð er á drögum hollenska þingmannsins Pieter Omtzigt sem lögð voru fram í laga- og mannréttindanefnd þingsins.
Evrópuráðsþingið ályktar að lýðræðið og réttarríkið krefjist þess að stjórnmálamenn séu verndaðir fyrir því að verða ákærðir vegna pólitískra ákvarðana sem þeir tóku sem kjörnir fulltrúar í embætti.
Ekki eigi að nota opinber réttarhöld til að hegna fyrir pólitísk mistök eða ágreining og stjórnmálamenn eigi að svara til saka fyrir refsiverða verknaði með sama hætti og óbreyttir borgarar, fyrir almennum dómstólum. Pólitískar ákvarðanir eigi að sæta pólitískri ábyrgð þar verk eru lögð í endanlegan dóm kjósenda.
Þá ályktar þingið að sérstakar reglur um lögsóknir á hendur ráðherrum megi ekki ganga í berhögg við grundvallarreglur réttarríkisins.
Evrópuráðsþingið beinir jafnframt þeim tilmælum til aðildarríkja Evrópuráðsins að nota ekki réttarkerfið í ofsóknir á hendur pólitískum andstæðingum.
Ekki er minnst berum orðum á Landsdómsmálið í sjálfri ályktuninni, en hún er að miklu leyti byggð á skýrslu Pieter Omtzigt í laga og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins og er sérstaklega vitnað í skýrslu hans. Þá fylgir hún með sem viðhengi, en Omtzigt fjallaði mikið um Geir Haarde og Landsdómsmálið í skýrslunni. Þannig virðist skýrsla Omtzigt hafa orðið ofan á, þrátt fyrir sérálit Þuríðar Backman í nefndinni.
Innlent