Erlendur ferðamaður féll í sjóinn við Reynisfjöru í Vík í Mýrdal. Strax voru kallaðar út björgunarsveitir af Suðurlandi ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Maðurinn barst með öldum að Reynisfjalli og rak þar uppi í fjöru.
Björgunarmenn reyndu að síga að honum en hann virtist heill á húfi að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg.
Maðurinn hafði verið í um 30 mínútur í sjónum þegar hann náði landi og var orðinn mikið þrekaður þegar honum var bjargað.
Þyrla Reykjavík Helicopters, sem var þarna skammt frá, náði að lenda hjá manninum og flytja hann í land.
Þyrla gæslunnar kom einnig á svæðið ásamt lækni.
