Ummæli forstjóra Barilla fyrirtækisins á Ítalíu í garð samkynhneigðra hafa vakið upp sterk viðbrögð. Forstjórinn lét hafa eftir sér að samkynhneigðir ógni gildum fjölskyldunnar og sagði að þeir gætu borðað aðra tegund af pasta ef þeim líkaði ekki orð sín. Í kjölfarið hafa fjölmargir ákveðið að sneiða hjá Barilla pasta víða um heim.
Ummæli Guido Barilla hafa svo sannarlega fallið í grýttan jarðveg og hefur hann ítrekað þurft að biðjast afsökunar á ummælum sínum. Sala á Barilla pasta hefur fallið víða um heim og vakti það athygli þegar vörur frá Barilla fóru á 25% afslátt í nokkrum verslunum hér á landi fyrir helgi. Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna 78, segir að hún og fjölmargir aðrir samkynheigðir á Íslandi sniðgangi nú pasta frá Barilla.
„Ef ég tala fyrir sjálfa mig þá hef ég ekki áhuga á að kaupa pasta þar sem hatursáróður fylgir með í kaupunum,“ segir Anna Pála. Hún telur að það sé ekki tilviljun að pasta frá Barilla sé nú á afslætti í mörgum verslunum hér á landi.
„Ég veit svo sem ekki hvort það sé innanlands- eða alþjóðlegt átak. Maður veltir því fyrir sér að tímasetningin sé ekki tilviljun. Það hefur verið bylgja á netinu þar sem fólk lýsir því yfir að það hafi ekki löngun til að versla Barilla pasta. Ég held að það sé talsvert um það að fólk sniðgangi Barilla pasta - forstjórinn lagði til mótmælin sjálfur.“
Fleiri en samkynhneigðir sniðganga Barilla
Það eru ekki bara samkynhneigðir sem mótmæla orðum Guido Barilla með því að sniðganga vörur fyrirtækisins. „Ef að forstjóri Barilla segir að samkynhneigt fólk eigi að borða eitthvað annað pasta þá er það ekki bara samkynhneigt fólk sem bregst við heldur fólk sem er meðvitað um mannréttindabaráttu almennt og það er miklu stærri hópur fólks.“
SS flytur inn Barilla til Íslands. Fyritækið vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.
„Kaupi ekki pasta þar sem hatursáróður fylgir með“
Tengdar fréttir
„Ekkert haturspasta á mínum borðum takk“
Vörur frá Barilla eru á tilboði víðsvegar í verslunum á Íslandi. Fjölmargir hafa skrifað athugasemdir á facebook-síðu Barilla á Íslandi vegna neikvæðra ummæla stjórnarformanns Barilla og segjast ekki vilja kaupa vörur Barilla.
„Samkynhneigðir geta borðað aðra tegund af pasta“
Stjórnarformaður Barilla hefur reitt samkynhneigða á Ítalíu til reiði með undarlegum ummælum.