Viðskipti innlent

Vestmannaeyingar saka Magnús Kristinsson um laumuspil

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Magnús Kristinsson útgerðarmaður er sakaður um laumuspil í viðskiptum við Síldarvinnsluna.
Magnús Kristinsson útgerðarmaður er sakaður um laumuspil í viðskiptum við Síldarvinnsluna.

Bæjarráð Vestmannaeyjabæjar segir að það komi á óvart hversu einbeittir kaupandi og seljandi fyrirtækisins Berg-Huginn hafi verið í því að koma í veg fyrir að forkaupsréttur Vestmannaeyjabæjar á fyrirtækinu væri nýttur. Magnús Kristinsson útgerðarmaður seldi Síldarvinnslunni á Neskaupstað Berg-Huginn fyrir fáeinum mánuðum. Vestmannaeyjabær mótmælti harðlega sölunni og taldi sig eiga forkaupsrétt. Samkeppniseftirlitið rannsakaði söluna um tíma en komst að þeirri niðurstöðu að ekki yrði gripið til ráðstöfunar vegna sölunnar.

Eignirnar fluttar í leyni til Reykjavíkur

Bæjarráð Vestmannaeyja segir að umræddar eignir, sem tengjast Bergi-Huginn, hafi til að mynda fyrst verið fluttar á leynd í félög með heimilisfesti í Reykjavík áður en þær voru seldar til Síldavinnslunar. Þá vekur það einnig athygli og undrun að samningur sá er málið snýst um er ekki lagður fram sem málsgögn.

Bæjarráð Vestmannaeyja segir mikilvægt fyrir öll sjávarútvegssamfélög að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort að sá réttur sem íbúum er falin í lögum um stjórn fiskveiða sé virkur. Er þar vísað í forkaupsrétt sveitarfélaga á útgerðum sem seldar eru úr viðkomandi byggðum. Ef ekki hljóti það að verða krafa allra sjávarútvegssveitarfélaga að ný ríkisstjórn geri það að sínu fyrsta verki að auka rétt íbúa þegar kemur að kaupum og sölu aflaheimilda.

„Sá hái sértæki skattur á sjávarútveg sem stjórnvöld hafa nú heitið að lækka, er einungis ein birtingarmynd óréttlætis gagnvart sjávarbyggðum. Hin hliðin er sú ef málum verður þannig hagað að án fyrirvara geti útgerðarmenn svipt heilu byggalögin tilverugrunni sínum. Slíkt fær ekki viðgengist og um það verður aldrei sátt meðal íbúa sjávarbyggða. Þær leikreglur sem fólgnar eru í forkaupsréttinum tryggja að aflaheimildir flytjast ekki frá byggðalagi á meðan enn er arðbært að gera þar út. Bæjarráð Vestmannaeyja ætlast til að þessi leikregla sé virt af útgerðamönnum og minnir á að sá strengur sem er milli útgerðamanna og íbúa í sjávarbyggðum er báðum aðilum mikilvægur. Það verður holur hljómur í rödd þeirra útgerða sem ekki sýna íbúum sjávarbyggða þá hollustu sem þeir sjálfir ætlast til,“ segir í bókun Vestmannaeyjabæjar.

Mikil blóðtaka fyrir sveitarfélagið

Bæjarráð Vestmannaeyja segir að ef salan á Bergi Huginn til Síldavinnslunar verði að veruleika þá sé um mikla blóðtöku að ræða fyrir sveitarfélagið. Samtals tapist 72 störf sem hafi gefið 642 milljónir í laun og beint útsvarstap nemi því um 93 milljónum. Þá hafði Vestmannaeyjahöfn um 22 milljónir í tekjur af skipum útgerðarfélagsins árið 2011 og telur bæjarráð að nærri láti að um sé að ræða átta til tíu prósent af hagkerfi Vestmannaeyja.

Í bókun bæjarráðs segir að bæjarstjóra sé falið að fylgja málinu áfram eftir af festu og þá ekki síst gagnvart nýjum sjávarútvegsráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×