Innlent

Páll mætti ekki í þingfestinguna

Hér má sjá hvar um heiminn Páll er grunaður um að hafa notað kreditkort íhaldshóps Norðurlandaráðs.
Hér má sjá hvar um heiminn Páll er grunaður um að hafa notað kreditkort íhaldshóps Norðurlandaráðs.
Páll Heimisson, sem hefur verið ákærður fyrir stórfelld umboðssvik, mætti ekki við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann er grunaður um að hafa notað kreditkort íhaldshóps Norðurlandaráðs meðal annars í dýrum fataverslunum , skartgripabúðum og á veitingastöðum um allan heim.

Það var heldur lítið sem kom fram í dómsal í morgun annað en von er á Páli til landsins í byrjun mars, en hann er með lögheimili í Rúmeníu þar sem hann stundar nám. Fyrirtaka í málinu verður 5. mars næstkomandi.

Sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur honum þann 18. desember síðastliðinn. Fréttablaðið fjallaði um hana um miðjan mánuðinn en þar segir meðal annars að Páll hafi notað kortið í sextán löndum frá janúar 2009 til mars 2011. Hann ferðaðist um þrettán Evrópulönd á tímabilinu en einnig fór hann til Líbanon, New York í Bandaríkjunum og Peking, höfuðborgar Kína.

Upphæðin sem hann er talinn hafa svikið út eru um nítján milljónir króna, þar af voru tólf milljónir teknar út í bönkum og hraðbönkum. Í ákærunni segir að árið 2011 virðist hann hafa hægt á sér, því þá sé notkunin á kortinu ekki nema tæpar 233 þúsund krónur á þriggja mánaða tímabili. Það ár sé ekki um neinar óheimilar úttektir á reiðufé að ræða.

Páll er þrítugur, fæddur árið 1982. Hann hafði verið virkur í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins og var alþjóðafulltrúi flokksins þegar hann tók við sem ritari íhaldshópsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×