Erlent

Tölvuþrjótur fyrir rétti vegna stærsta kortasvindls sögunnar

Þorgils Jónsson skrifar
Dimitri Smilianets er nú fyrir rétti í Bandaríkjunum vegna umfangsmesta kortasvindls sögunnar. Hann segist saklaus.
Dimitri Smilianets er nú fyrir rétti í Bandaríkjunum vegna umfangsmesta kortasvindls sögunnar. Hann segist saklaus.
Dimitri Smilianets, tæplega þrítugur Rússi, lýsti sig í gær saklausan fyrir rétti í Bandaríkjunum, en hann er ákærður ásamt fjórum öðrum fyrir stærsta greiðslukortasvindl sögunnar.

Gengið er sakað um að hafa, með því að hakka sig inn í netþjóna fjölmargra stórfyrirtækja, stolið upplýsingum um að minnsta kosti 160 milljónir kredit- og debetkorta og valdið tjóni upp á hundruð milljóna Bandaríkjadala. Brotin áttu sér stað frá ágúst fram á þetta ár.

Smilianets, sem var nokkuð þekktur sem eigandi tölvuleikjakeppnisliðs, er sá eini sem er fyrir rétti, en hann var framseldur frá Hollandi fyrir tæpu ári síðan. Einn til viðbótar er enn í haldi í Hollandi og bíður framsals, en hinir, tveir Rússar og Úkraínumaður, leika enn lausum hala.

Hlutverk Smilianets í klíkunni var að selja kortaupplýsingarnar um allan heim, en þær voru svo nýttar til þess að búa til ný kort til að svíkja út fjármuni í hraðbönkum og með beinum kaupum á vörum eða þjónustu.

Meðal þeirra fyrirtækja sem urðu fyrir barðinu á svikurunum stórtæku eru Nasdaq, JetBlue og Heartland Payment Systems eitt stærsta kortaumsýslufyrirtæki heims.

Þessi þrjú fyrirtæki ein og sér töpuðu um 300 milljónum dala vegna gagnaþjófnaðarins, en á annan tug annarra fyrirtækja urðu einnig fyrir tjóni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×