Innlent

Þeir sem birta myndir af kjörseðlinum geta búist við sektum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þrír kjörseðlar sem Vísir hefur séð myndir af.
Þrír kjörseðlar sem Vísir hefur séð myndir af.
Þeir kjósendur sem hafa tekið myndir af kjörseðlinum sínum og birt þær á Facebook geta búist við því að verða sektaðir ef upp um þá kemst.

Í kafla 25 í lögum um kosningar til Alþingis er fjallað um viðurlög við brotum á kosningalöggjöfinni. Þar segir meðal annars að það varði sektum ef kjósandi sýni af ásettu ráði hvernig hann kýs eða hefur kosið. Í 85. grein laganna segir svo skýrt að „kjósandi skal gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði.“

Vísir hefur séð þrjá kjörseðla þar sem menn hafa tekið myndir af kjörseðlinum sínum inni í kjörklefa og birt mynd á Facebook. Þá hafa upplýsingar borist um fleiri sem hafa gert hið sama. Óvíst er hvaða áhrif þessi lögbrot munu hafa á framhald mála.

Sérfræðingur í stjórnskipunar- og stjórnsýslurétti sem Vísir talaði við segir þó grundvallarmun á því þegar almennir borgarar brjóta gegn kosningalöggjöfinni og þegar framkvæmdaaðilinn brýtur gegn ákvæðum kosningalaga eins og gerðist í stjórnlagaráðskosningunni.


Tengdar fréttir

Ólöglegt að birta mynd af atkvæðaseðlinum sínum á Facebook

Þótt kjörsókn sé með dræmara móti er víst að þeir sem taka þátt í kosningunum hafa margir hverjir mikinn áhuga á atburðarrás dagsins og jafnvel að deila skoðunum sínum með öðrum. Þannig veit Vísir af minnst þremur tilvikum þar sem kjósendur hafa tekið mynd af atkvæðaseðlinum sínum inni í kjörklefa og birt á Facebook. Slík hegðun stríðir reyndar gegn 85. grein laga um kosningar til Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×