Atvinnuleysi mældist 10,9% í ríkjum Evrópusambandsins í ágúst síðastliðnum að því er fram kemur í nýjum tölum frá Eurostat. Þar segir jafnframt að atvinnuleysi á evrusvæðinu hafi mælst 12%. Hlutfallið er óbreytt frá júlí, en nokkur aukning frá ágústmánuði í fyrra þegar hlutföllin voru 10,6% í ESB og 11,5% á evrusvæðinu.
Alls voru 26,6 milljónir manna án atvinnu í ríkjum ESB í ágúst og hafði fjölgað um 882 þúsund frá ágúst 2012.
Minnst atvinnuleysi mældist í Austurríki (4,9%), Þýskalandi (5,2%), og Lúxemborg (5,8%), en mest í Grikklandi (27,9% í júní) og Spáni (26,2%).
Mesta fækkunin í hópi atvinnulausra var í Lettlandi þar sem hlutfallið fór úr 15,6% niður í 11,4% milli annars ársfjórðungs í fyrra fram til ársins í ár.
Ástandið er mun verra í hópi ungs fólks, en alls eru 23,3% þegna ESB-ríkja undir 25 ára án atvinnu. Ástandið er alvarlegast í Grikklandi þar sem 61,5% fólks undir 25 ára var án atvinnu í júní síðastliðnum.
Til samanburðar var atvinnuleysi á Íslandi 5,5% og hafði lækkað um 0,4 prósentustig milli ára, og í Bandaríkjunum voru 7,3% atvinnulaus, sem er talsverð lækkun frá ágúst í fyrra þegar atvinnuleysi mældist 8,1%.
Atvinnulausum í ESB fjölgar
Þorgils Jónsson skrifar
