Lífið

Bjó til brynju úr fimm þúsund dósaflipum

Kristjana Arnarsdóttir skrifar

„Þessi hugmynd kviknaði í einhverri vísindaferð þegar ég var í tölvunarfræðinni,“ segir Björn Elíeser Jónsson, tölvunarfræðingur hjá leikjaframleiðandanum Plain Vanilla Games.



Fyrir um þremur árum hófst Björn handa við að búa til brynju úr dósaflipum sem fengust af gos- og bjórdósum. „Ég rakst á þetta á netinu og fékk þá hugmynd að gera þetta. Ég gerði mér þó ekki alveg grein fyrir því hversu mikil vinna fólst í þessu,“ segir Björn, sem nú hefur notað um 5.000 dósaflipa í verkið. Hann segist eiga örlítið í land með að klára brynjuna en nú minnir hún einna helst á kjól.



Spurður að því hvað hann ætli að gera við gripinn segir hann það enn óljóst. „Ætli ég mæti ekki í henni í fermingar á tyllidögum eða eitthvað. Ég þori samt ekki að mæta í henni í bæinn því það er alltaf einhver þar sem er til í að lemja gaur sem er í brynju.“



Vinnufélagarnir hjá Plain Vanilla Games gerðu samt tilraun með brynjuna í gær. „Yfirmaðurinn prófaði að slá til mín með hníf í hádeginu, bara rétt til að prufukeyra þetta,“ segir Björn, sem slapp þó heill frá atvikinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.