Innlent

Umræðan hefur opnað augu foreldra

Kai Lechelt, átta ára stúlka frá Idaho sem fæddist í líkama drengs, er ein fjölmargra barna sem kljást við kynáttunarvanda í heiminum.
Kai Lechelt, átta ára stúlka frá Idaho sem fæddist í líkama drengs, er ein fjölmargra barna sem kljást við kynáttunarvanda í heiminum. nordicphotos/getty
Viðtölum vegna transmála hjá Samtökunum 78 hefur fjölgað mikið. Unnið er að nýjum verkferlum innan BUGL vegna kynáttunarvanda barna og unglinga.

Meirihluti viðtala fjölskyldu- og leiklistarráðgjafa hjá Samtökunum 78 snýr að transmálum. Hlutfallið hefur aukist mikið síðustu tvö ár, en fyrir þremur árum síðan var um það bil eitt viðtal á ársgrundvelli sem sneri að málefnum transfólks.

Sigríður Birna Valsdóttir starfar sem ráðgjafi hjá Samtökunum. Hún vinnur meðal annars með transfólki og aðstandendum þeirra.

Sigríður segir mikla vitundarvakningu hafa átt sér stað varðandi málefni transfólks á síðustu árum. „Fyrir þremur árum síðan var ég kannski að taka eitt viðtal yfir árið sem hafði að gera með transfólk. Undanfarin tvö ár hefur meira en helmingur viðtalanna eitthvað að gera með transmál, bæði hjá börnum og fullorðnum,“ segir Sigríður.

Umræðan undanfarin tvö ár hafi meðal annars hafa gert það að verkum að foreldrar séu nú fyrri til að bregðast við ef vandinn kemur upp hjá barni í stað þess að bæla tilfinningarnar niður. Slíkt geti oft haft mjög slæmar afleiðingar seinna í lífi barnsins. Sigríður hvetur foreldra og aðstandendur til að leita sér aðstoðar sem fyrst ef grunur leikur á kynáttunarvanda hjá barni þeirra.

Erlendur Egilsson, sálfræðingur hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, segir kynáttunarvanda barna og unglinga mjög margþættan og misjafnan eftir því hvenær hann kemur fram hjá einstaklingunum.

„Nú erum við að byrja að vinna með þetta, búa til vinnulag og klínískar vinnuleiðbeiningar fyrir þessi börn,“ segir hann. „Barna- og unglinganálgunin er í raun og veru frekar ný um allan heim. Áður fyrr var unnið að því að „leiðrétta“ vandann eða fá börnin ofan af því að skynja hann, sem var gömul rétttrúnaðarhugsun. En það hefur breyst og við erum að feta inn á nýjar slóðir í þessum málum og þurfum því að vanda okkur sérstaklega vel.“

Sigríður og Erlendur munu halda erindi um kynáttunarvanda barna og unglinga á ráðstefnu BUGL, Réttast væri að flengja ræfilinn – viðhorf til barna með geðræn vandamál, föstudaginn 11. janúar.sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×